29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

17. mál, kaup á nauðsynjavörum

Flutnm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg gæti vel fallist á, að till. væri rædd í 2. umr., og að báðum deildum gæfist kostur á að taka hana til meðferðar. Með því gefst væntanlega kostur á, að heyra eða sjá álit allra þingmanna, og hefir það nokkurt gildi fyrir framkvæmdir stjórnarinnar í málinu.

Vjer flutningsmennirnir teljum nauðsynlegt, að gjöra sem mest til að tryggja landið að nauðsynjavörum, og jafnframt að gefa almenningi kost á þeim, með sem vægustu verði, og ætla má, að það verði mun lægra en hjá kaupmönnum. Eins og kunnugt er, eru litlar horfur á því, að ófriðnum lykti fyrst um sinn. Afleiðing þessa langvinna ófriðar er sú, að ófriðarþjóðirnar verða að taka fleiri og fleiri menn frá vinnu sinni við framleiðsluna, og senda til vígvallanna. Afleiðingin er sú, að framleiðsla í ófriðarlöndunum verður margfalt minni nú en á friðartímum. Hins vegar leggja ófriðarþjóðirnar nú en meira kapp en áður á, að ná í vörur frá hlutlausum þjóðum, til að birgja sig upp, og tryggja að ófriðurinn geti haldið áfram þess vegna, og ekki þurfi að óttast matvælaskort.

Menn hafa þegar orðið varir afleiðinganna af þessum ráðstöfunum ófriðarþjóðanna, þar sem skorturinn á nauðsynjavörum í hlutlausum löndum vex með degi hverjum. Vjer erum ekki heldur hvað best settir, sem eigum svo langt að sækja nauðsynjar vorar, og höfum skipakost svo lítinn og illan. Er því nauðsynlegt að vinda bráðan bug að ráðstöfunum í þessu efni. Að vísu hefir landsstjórnin heimild til að gjöra kaup á vörum. En það er að eins heimild, en ekki svo fyrir mælt, að það skuli gjört, nema landsstjórnin telji það nauðsynlegt. Mjer finst þetta horfa öðru vísi við fyrir landsstjórninni, ef þingið skorar á hana að gjöra ráðstafanir. Hún er öruggari í framkvæmdunum, ef þingið hefir falið henni þetta, heldur en ef hún hefir að eins heimild til þess.

Það, sem enn fremur ýtti undir oss flutningsmenn, var það, að till. kom fyrir síðasta þing í líka átt, sem ekki náði fram að ganga. Mjer virðist svo, sem landsstjórnin hafi hingað til ekki gjört eins mikið að vörukaupum eins og æskilegt væri. Get jeg giskað á, að orsökin sje sú, að henni hafi ekki fundist nauðsynin brýn, nje aðstaðan góð, til að ráðast í mikið.

Um efni og orðalag till. þarf ekki að fara mörgum orðum. Þar eru nauðsynjavörur ekki taldar upp sjerstaklega, en með orðinu er átt við allskonar matvöru, sem alment þarf með, og þær vörutegundir aðrar, sem taldar eru upp í heimildarlögunum.

Þar sem í till. stendur, að vörurnar skuli seldar kaupmönnum, er átt við það, að kaupmönnum gefist og kostur á að ná í vörurnar, einkum þó þeim, er erfitt eiga með að fá vörur annarsstaðar að. Enn fremur er sveitarfjelögum, kaupfjelögum, og öðrum fjelögum, sem og verkamannafjelögum, og sjómannafjelögum gefinn kostur á að fá vörurnar, og það þótt þau hafi ekki verslunarleyfi. Það er kunnugt, að fjelögum, sem ekki hafa verslunarleyfi, hefir verið synjað um kaup á landssjóðsvörunum. En þetta er óheppilegt. Tilgangurion er sá, að tryggja landið og jafnframt draga úr dýrtíðinni. Þetta ár hafa kaupmenn og verslunarfjelög setið fyrir kaupunum, en önnur fjelög, sem ekki hafa verslunarleyfi, hafa orðið útundan, og tel jeg það illa farið. Jafnframt því, sem farmar eru keyptir til tryggingar, á að útbýta þeim með vægu verði, og án ábata, en þó ekki svo, að landssjóður skaðist neitt á sölunni.

Jeg þarf svo eigi að fjölyrða frekar um till. Vona, að háttv. þingmenn skilji ástæður vor flutnm. og geti fallist á, að nauðsyn sje á að gjöra slíkar ráðstafanir. Brtt. hefir komið frá háttv. þm. Stranda. (M. P.) og háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.). Jeg vil ráða háttv. deild frá að samþykkja hana. Hún útilokar þá menn og þau fjelög, sem ekki hafa verslunarleyfi. En tilgangurinn er ekki eingöngu sá, að allir kaupmenn og kaupfjelög fái vöruna, heldur og að allur þorri manna geti fengið hana milliliðalaust. Gjöri jeg og ráð fyrir, að ef varan fæst, fáist svo mikið af henni, að hún verði ekki lögð upp öll á einum stað, heldur og í stærstu kaupstöðum landsins. Jeg skal ekki segja meira um málið nú, en vonast til þess að geta vikið að því nánar síðar.