29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

17. mál, kaup á nauðsynjavörum

Bjarni Jónsson:

Jeg undrast till. á þgskj. 32. Það er einkennileg hugmynd, að útiloka þá, sem ekki hafa verslunarleyfi, en láta orðið „kaupmenn“ standa.

Landið á þá að vera milliliður fyrir kaupmenn, eins konar umboðssali. Það er alveg öfugt við grundvallaratriði landssjóðsverslunar, sem er að gjöra fátæklingum kleift að ná í nauðsynlegustu vörur án milliliðanna, sem leggja á þær marga af hundraði. Reglan ætti einmitt að vera sú, að selja ekki kaupmönnum heldur sýslufjelögum, sveitarfjelögum og bæjarfjelögum.

Það var alls ekki tilætlunin með styrjaldar- eða harðindaráðstöfunum, að landið gjörðist eins konar þjónn verslunarstjettarinnar og keypti vörur handa kaupmönnum. Það geta þeir sjálfir gjört, eða látið aðra gjöra. Jeg mun því bera fram brtt. um að strika út orðið „kaupmenn“, og mun þá komast meira samræmi í till. en með brtt. á þgskj. 32.

Jeg skal einnig geta þess nú, að jeg hefi hugsað mjer að flytja frv., sem veitti landsstjórninni heimild til þess, að selja fátæklingum vörur við lægra verði í samræmi við frv., sem væntanlegt er um uppbót handa þeim, sem eru í þjónustu landsins. En alt um það yrði landssjóður ekki smásali, heldur mundi fjelögunum verða selt í stórkaupum, og mundi stjórnin sjálfsagt ákveða með reglugjörð, hversu stór kaupin skyldi vera.

Ef hitt væri aftur á móti skoðun manna, að landssjóður seldi vörur til kaupmanna, þá þyrfti að ákveða, við hvaða verði kaupmenn mætti selja vörurnar.