29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

17. mál, kaup á nauðsynjavörum

Gísli Sveinsson:

Jeg stend upp að eins til þess, að benda á það, að mjer virðist, sem þrjú atriði sje mönnum óljós í þessu efni.

1. Hvort þörf sje á slíkri tillögu sem þessari, þar sem lagafrv. er nú fyrir þinginu, sem heimilar stjórninni vörukaup og sölu.

2. Hvort þær ráðstafanir, sem tillagan talar um, eigi að vera til tryggingar, eða vörurnar skuli seljast í útsölu þegar í stað. Mjer virðist svo, sem till. gjöri ráð fyrir því, að vörurnar sje til tryggingar, en hins vegar skilst mjer á ræðum þeim, sem fluttar hafa verið, að tilætlunin sje sú, að útsala fari fram á vörunum þegar í stað.

3. Hvort selja beri vörurnar ákveðnum fjelögum með einhverjum takmörkunum, eða einstökum mönnum hverjum og einum.

Úr því að málið horfir svo óljóst við, virðist ekki vanþörf á, að það væri athugað í nefnd, og þá helst í nefnd þeirri, sem fjallar um verslunarmálin, og leyfi jeg mjer að gjöra það að tillögu minni, að því verði að lokinni þessari umræðu vísað þangað.