29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

17. mál, kaup á nauðsynjavörum

Bjarni Jónsson:

Jeg er samþykkur háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að nefnd sje sett í málið.

Jeg skal geta þess, að orð mín í fyrri ræðu minni, bar að skilja svo, að vörurnar yrðu seldar jafnóðum, og fátæklingum með vægara verði. Jeg gat þess þá, að jeg ætlaðist ekki til þess, að landssjóður yrði smásali, heldur yrði fjelögum selt eftir ákvæðum, sem stjórnin setti í reglugjörð. Á það er að líta, að vjer sjeum ekki reynslulausir í þessu efni, því að meðan Sigurður Eggerz var ráðherra, var sett nefnd honum til aðstoðar, og fór hún fram eftir ákveðnum reglum, og seldi hverju fjelagi sem var, ef viðskiftin námu nægri upphæð.

En ekki ætti það að skifta máli, hvort fjelögin væru gömul eða ný. En ef menn halda, að af því muni fremur leiða smásölu, þá vil jeg benda á það, að einn lítill hreppur gjörir ekki meiri kaup en t. d. Iðnaðarmannafjelagið hjer í Reykjavík. Jeg ímynda mjer ekki, að mínum kjósöndum blöskri, þótt meira af vörumagni sje selt hjer í Reykjavík, þar sem heima á sjöttungur allra landsmanna, heldur en selt er í einn hrepp. Það er eðlilegt, og jeg geng óhræddur fyrir mína kjósendur, þótt jeg hafi stutt að því, að fátæklingar í Reykjavík fengi hjálp, líkt og þeir fá hjálp handa sínfátæklingum.

Annars geymi jeg mjer að ræða málið til síðari tíma, enda þarf ekki um það að þjarka. Jeg ímynda mjer að brtt. á þgskj. 32 sje sprottin af þeim misskilningi, að í aðaltillögunni felist smásala. Afleiðingin mundi vera, að allir, sem vildu kaupa, mynduðu fjelög, og því mætti ekki selja þeim? Það væri erfitt landsstjórninni að útiloka þau, og vafasamt hvort rjett væri. Þessi brtt. má því teljast sem tilraun flutningsmanna til þess, að bíta í skottið á sjálfum sjer.