29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

17. mál, kaup á nauðsynjavörum

Benedikt Sveinsson:

Jeg stend upp til þess að styðja háttv. þm. Dala. (B. J.) í andmælum gegn brtt. á þgskj. 32. Ástæðan fyrir þeirri brtt. er sú, að með þeim hætti verði girt fyrir, að stjórnin þurfi að vafsast í smásölu. En þótt strikuð væri út orð þau, sem brtt. fer fram á, þá sýnist mjer engan veginn vera girt fyrir smásöluna, með því að kaupmenn, einkum hjer í Reykjavík, geta alt að einu fengið keyptan 1 rúsínukassa eða 1 og 1 poka af mjöli, því að þessu eru engin takmörk sett í tillögunni.

En eins og háttv. þm. Dala. (B. J.) tók fram, getur stjórnin sjálf sett reglur um það, í hve stórum slöttum hún vill selja vörurnar, og á þann hátt er henni í sjálfvald sett, að girða fyrir smásöluna.

Flytjendur brtt. á þgskj. 32 hafa haldið því fram, að tilgangi till. á þgskj 19 um það, að selja megi einnig öðrum fjelögum en sveitarfjelögum, þótt ekki hafi verslunarleyfi, væri náð með því, að heimila sveitarfjelögum vörukaup. En jeg vil benda á það, að svo þarf ekki að vera. Þess eru dæmi, að kaupmenn eru oddvitar í hreppsnefndum, og eru þeir þá að jafnaði svo voldugir, að þeir mundu geta aftrað því, að hreppsnefndin gjörðist keppinautur verslana þeirra. Þar sem svo háttar, er miklu betur trygður hagur almennings með því, að kaupin sje heimil hverju því fjelagi, sem vera skal. Sje jeg alls enga ástæðu til að synja atorkumönnum, sem slá vilja sjer saman í fjelag, um kaup á vörunum. Vil jeg því og fastiega mæla með því, að brtt. á þgskj. 32 verði feld.