29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

17. mál, kaup á nauðsynjavörum

Matthías Ólafsson:

Jeg vildi mega spyrja háttv. flutningsmenn að því, hvað þeir meini með orðinu „nauðsynjavörur“. Eftir málvenjunni táknar það matvæli, þar með nú talinn sykur, en í reyndinni grípur það yfir margt fleira, svo sem veiðarfæri, salt, kol o. s. frv. Þetta kemur greinilega fram í frv. um vörukaup landssjóðs. Þar er orðið skýrt í 2. gr. Jeg skal taka til dæmis, að vjer mundum vera verr settir, ef oss vantaði veiðarfæri en korn, því að ef vjer höfum veiðarfæri, þá er oss jafnan vís matur úr sjó. Þetta orð þyrftu því háttv. flutningsmenn að skýra.

Jeg held annars, að till. gjöri ekki meira gagn en frv., þótt flutningsmönnum sje vorkunn að hafa flutt hana, með því að þeir vissu ekki um frv., þótt þeir hins vegar hefðu mátt vita það, að setja hefði þurft ný lög í stað hinna gömlu.

Jeg sje ekki, hver munur á því að skora á stjórnina. Það hefir ekki lagt litlar hömlur á framkvæmdir hennar, að hún hefir ekki haft neitt í höndum, til þess, að gjöra fullnægjandi ráðstafanir; hana hefir vantað húsnæði o. s. frv.

Um deiluna um brtt. 32 skal jeg taka fram, að fyrst kaupfjelög eru stofnuð, gæti þetta orðið til að trufla fjelagsskapinn, ef brtt. yrði ekki samþykt. Hygg jeg að tillagan hafi komið fram af þessum ástæðum, að einstakur maður hefir skrifað stjórnarráðinu og kallað sig kaupfjelag. En svo, er varan kom á hafnarstað, kannaðist enginn við merkið. Gæti þetta því orðið til að spilla kaupfjelagsskapnum, sem verið hefir landi og þjóð hinn þarfasti. Eins og fyrirkomulagið á að verða eftir þingsályktunartill., er líklegt, að það dragi frá þeim. Þau verða að leggja stjórnarkostnað og aðra fyrirhöfn á vöruna, og yrðu því að selja hana hærra verði en slíkir einstaklingar, og mundi það veikja trúna á þeim, og ef til vill eyðilegga fjelagsskapinn, er menn sæi, að þeir gæti fengið ódýrari vörur á annan hátt. Þetta gæti gjört ilt í framtíðinni. Það er hárrjett, að landssjóður á ekki að útvega kaupmönnum vörur. Það eiga stórkaupmenn og umboðssalar að gjöra.