29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

17. mál, kaup á nauðsynjavörum

Flutnm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg verð að taka það fram, að jeg hafði ekki búist við þessum andmælum.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) mintist á brtt. Hann vildi halda því fram, að nauðsyn bæri til, að fyrirbyggja smásölu af hálfu landssjóðs. Má vera, að jeg hafi ekki nefnt þetta atriði, en háttv. þm. Dala. (B. J.) kvað það óheppilegt, að slík smásala ætti sjer stað. Sama var og skoðun vor flutningsmanna, þótt mjer hafi sjest yfir það. Stjórnin er ekki heldur skylduð til að gegna smápöntunum einstakra manna eða fjelaga, og jeg gjöri ekki heldur ráð fyrir, að hún gjöri það. En hitt tel jeg varhugavert, að kippa þessu burt og synja með því fjelögum, sem ekki hafa verslunarleyfi, um vörukaup. Mætti misskilja þetta svo, að sveitarfjelög, sem ekki hafa verslunarleyfi, sje útilokuð frá vörukaupum. Reynslan hefir sýnt, að þetta gæti komið sjer illa. Sveitarfjelagi hjer sunnanlands hefir verið synjað um vörur, af því að það hefði ekki verslunarleyfi.

Jeg skal geta þess, viðvíkjandi því, að kaupmenn eru nefndir, að jeg tók fram, að það ættu að vera þeir einir, er illa væru settir hvað samgöngur snertir, til að útvega sjer þær á annan hátt. Taldi jeg ekki rjett að útiloka þá, atvinnu þeirra vegna. En slíku ákvæði má auðvitað ekki beita að óþörfu.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) talaði um það misrjetti, að fjelög í bæjum mundu fá vöruna ódýrari en sveitarfjelög. Það er svo ætíð, að þeir, sem verða að sækja útlendu vöruna langa leið í kaupstaðinn, verða að borga nokkru hærra verð, og því verður útlenda varan sveitamanninum nokkru dýrari. En jeg fæ eigi skilið, að sveitamönnum muni blæða það mjög í augum, þótt stöku fátæklingar í bæjum og sjóþorpum fengi útlendu vöruna við litlu lægra verði. Það eru einkennilegar sálir, sem öfundast yfir slíku. Nú vita allir, að sveitamenn framleiða nauðsynjavörur, sem eru þeim miklu ódýrari en kaupstaðafólki. Það virðist helst svo, sem einstakir þm. sje í meira lagi hugsjúkir um álit kjósenda sinna í sveit. (Þórarinn Jónsson: Og í bæjum). Jeg veit það fullvel, að nauðsynlegt er að hafa hönd í bagga með bæjarstjórnum. Jeg þekki vel hvernig þar gengur.

Þá vil jeg snúa mjer að háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.). Eftir orðum hans í gær mun hann vera úr þeirri „skúffu“ manna, sem ættu að bera skyn á prentletur, og komast fram úr stuttri tillögu. Samt vil jeg nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa till. upp.

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á landsstjórnina að gjöra nú þegar ráðstafanir til þess, að kaupa nauðsynjavörur til tryggingar landinu.

Vörurnar skulu seldar kaupmönnum, kaupfjelögum, sveitarfjelögum og öðrum fjelögum, þótt ekki hafi þau verslunarleyfi, með svo vægu verði, sem frekast er unt“.

Mjer finst þetta svo ljóst, að ekki geti valdið misskilningi, þótt háttv. þm. hafi fundist annað. Hann tók ekki heldur fram, hvað honum fanst óljóst. Ef til vill hefði hann getað sagt, að till. næði ekki nógu langt.

Jeg drap á áður, hvaða vörur við væri átt, og taldi óþarft að tína það alt upp í till. Hitt get jeg fallist á, að málinu verði vísað til nefndar. Þá væri tækifæri til að skrifa upp alt það, sem háttv. þm. vilja í till.

Háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) þarf jeg ekki að svara sjerstaklega. Jeg hefi áður svarað háttv. þm. Stranda. (M. P.), en skoðanir þessara háttv. þm. falla mjög saman. Jeg veit ekki, hvort reynsla er fyrir því, að 3—4 menn myndi fjelag og gjöri vörukaup. (Magnús Pjetursson: Reynsla.). Ef reynsla er fyrir því, þá vil jeg spyrja. Gætu þá ekki menn með verslunarleyfi gjört svipaðar smápantanir? Þetta kemur því ekki í veg fyrir smápantanir, þótt því væri kipt burt. Tel jeg bæði tryggingu og gagn að hafa þetta í till.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) spurði, hvað meint væri með orðinu nauðsynjavörur. Mig minnir ekki betur en að háttv. þm. sæti í sæti sínu, er jeg talaði áðan og mintist á þetta atriði. Það er leiðinlegt að þarfa að margstaglast á hinu sama.

Sami háttv. þm. (M. Ó.) telur þess ekki þörf, að skora á stjórnina. Það er hans skoðun en ekki mín, og þeir eru margir, er hafa sömu skoðun og jeg, því að vörukaupin og útbýtingin hafa valdið óánægju.

Jeg hefi heyrt því fleygt, að einstakir menn hafi þótst vera fjelög og fengið vörur keyptar, og eðlilega hefir þetta valdið óánægju. Þetta hefir ef til vill vakað fyrir háttv. þm. Stranda. (M. P.). Þetta verður ekki útilokað með því, að samþykkja brtt. á þgskj. 32. Það er ómögulegt fyrir stjórnina að vita, hvort viðkomandi hefir verslunarleyfi eða ekki, nema með því móti að rannsaka í hvert skifti. En fyrst og fremst verður að fyrirbyggja, að okrað verði á vörunni.

Hvernig sem á málið er litið, fæ jeg ekki skilið, hvers vegna menn andmæla þessari ráðstöfun. Oss þótti svo, sem stjórnin með þessu fengi traustari bakhjarl. Allir sjá, að heimild er annað en áskorun. Ef svo reyndist, að vörukaup vœri óþörf, og landssjóður biði hnekki af einhverri pöntun, þá geta þingmenn auðveldlega áfelt stjórnina. En með því að samþykkja tillöguna er stjórnin, eins og jeg hefi áður sagt, margfalt öruggari til allra framkvæmda.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) barði meðal annars við skorti á húsrúmi og áhöldum fyrir landssjóð. Ef húsrúm vantar, œtti ekki að vera ókleift að byggja skúr. Það mundi sjálfsagt borga sig eins vel, og sú ráðstöfun, að nota Landsbankann gamla, sem nú er 100 þús. kr. virði, fyrir pakkhús.

Með áhaldaleysi á háttv. þm. (M. Ó.) líklega við skort á mæli og vog. Ekki ætti landssjóði að vera ókleift að útvega sjer þau áhöld. Jeg veit ekki, hvað háttv. þingmaður hugsar með því, að bera slíkt fram. Svo hjegómlegar og lítilfjörlegar viðbárur sama ekki þingmanni.