29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

17. mál, kaup á nauðsynjavörum

Gísli Sveinsson:

Það hefir nú komið enn berar fram í síðustu ræðu háttv. flutningsmanns (J. B.), að honum er málið ærið óljóst sjálfum. Jeg tók rólega fram athugasemdir mínar, og tel enga ástæðu til, að gaspra hjer með æsingaræðum og ónotum, eins og háttv. flutningsmaður lætur sjer sama.

Jeg tók það fram, að þörf væri á nefnd, þar sem mönnum kæmi ekki saman um þrjú atriði.

Það verður að vera á ábyrgð háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), að hann tekur ekki betur eftir en þetta.

Þetta, að í tillögunni stendur „vörurnar skulu seldar“, gæti stjórnin skilið svo, að hún ætti að selja vörurnar þegar í stað. En það mótmælir því, að vörurnar skuli keyptar „til tryggingar“. Eigi útsala þegar að fara fara fram, mótmælir till. sjálfri sjer. (Pjetur Ottesen: Menn birgja sig þá upp). Háttv. flutnm. (J. B.) er ekki vel við, að málið sje sett í nefnd, og get jeg skilið það. Hann hefði þó sjálfur átt að stinga upp á nefnd, ef hann hefði viljað fá góða íhugun málsins og tryggilega, en ekki flaustra því af.

Það er fáránlegt að heyra háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) ónotast út af hógværum athugasemdum. Jeg fæ ekki skilið, hvað háttv. þm. sjer sjer í því, að æsa sig svo ákaflega upp fyrir pallana. Málin geta að minsta kosti ekkert grætt á því.