29.12.1916
Neðri deild: 10. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

17. mál, kaup á nauðsynjavörum

Matthías Ólafsson:

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) er svo einstaklega hógvær og prúður í orðum, að sjálfsagt er að svara honum með tilhlýðilegri og skyldri kurteisi. Hann var eyðilagður yfir því, að þurfa að tyggja eitthvað upp, sem hann þóttist hafa sagt áður. En það, sem hv. 1. þm. Reykv. segir, er, sem betur fer, ekki gildandi lög. Vilji hann því láta þingið samþykkja eitthvað, verður hann að setja það á pappír, svo að þm. viti, hvað um er að vera. Það er ekki nóg fyrir háttv. þingmann að vitna í heimildarlagafrv. á þgskj. 29. Til þess að þingmenn geti aðhylst tillögu háttv. þingmanns, verður hún að vera skýr og ótvíræð, því að þessa ber fyrst og fremst að krefja af öllum lögum og mikilvægum ráðstöfunum.

Sami háttv. þm. (J. B.) vildi reyna að gjöra skopleg orð mín um húsnæðisskort og áhaldaleysi. Þessi háttv. þm. talar býsna digurt, en hann ætti að gæta þess, að til þess, að orðin geti orðið að framkvæmd, verða þau að vera töluð af einhverju viti og þekkingu, en á þessu er oft tilfinnanlegur misbrestur í ræðum háttv. þingmanns (J. B.). Hann hjelt, að ekki gæti verið um dýr áhöld að ræða, og að ekki þyrfti önnur áhöld en mæli og vog. En mjer finst t. d. höfnum víða svo farið, að nauðsyn muni á sterkum uppskipunarbátum, og það eru dýr áhöld. Þarna slær því háttv. þm. (J. B.) fram staðleysu einni. Það er líka ljett að segja, að byggja megi hús fyrir kornvörur með hægu móti. En hjer þarf meira en innantóm orð.