04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

25. mál, kolarannsókn og kolavinnsla

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Það er ekki þörf á langri framsöguræðu. Það er öllum í fersku minni, að kolin hafa nú nýlega orðið til þess, að vjer Íslendingar höfum orðið að sæta þeim kjörum í verslunarmálum vorum, sem ekki eru samboðin frjálsu ríki. Það er líka öllum ljóst, að kolin eru oss nauðsynlegri en flest annað, og að það væri meira vert en gullnáma, ef hjer fyndust kol í jörðu, og mjer finst það ekki vera nema sjálfsagt, að stjórnin taki slíkar námur, sem til eru og kunna að finnast, þegar í stað í sínar hendur, og láti þegar í stað fara að vinna þær. Nú hefir farið fram rannsókn á kolum þeim, er fundist hafa í Stálfjalli, sem er norðan megin Breiðafjarðar, og hafa þau reynst vel, og kann svo að vera víðar, að góð kol sje hjer í jörðu, og finst mjer vera alveg sjálfsagt, að rannsaka það rækilega, hvort svo er ekki. Jeg hefi nefnt „við sjó fram“ í tillögu minni af þeirri ástæðu, að jeg hafði hugsað mjer, að þar væri hægast að ná kolunum og flytja þau frá námunum, en því fer fjarri, að jeg vilji ekki helst láta fara fram rannsókn sem víðast. Og nú vil jeg skora á stjórnina, að fá hæfan mann frá útlöndum, helst sænskan eða þýskan, til þess að rannsaka kolalög, og vil jeg ekki, að það sje gjört „við tækifæri“. Nei, það á að gjöra tafarlaust, og spara hvorki fje nje fyrirhöfn, til þess að það verði vel gjört.

Jafnvel þótt hjer sje ekki til í jörðu svo góð kol, að nota megi þau sem eldivið í skip, þá er hægt að gjöra góð kol úr lakari kolum með því að pressa þau, bæta í þau efnum og gjöra úr þeim töflur, og yrði þá að gjöra það álandsins kostnað..

Hafi nú stjórnin ekkert frá þessu þingi til að fara eftir, þá er síður von á framkvæmdum frá hennar hálfu. En þótt þetta sje ekki í lagaformi, þá ætti það þó að vera nóg til þess, að mál þetta yrði athugað með skynsemi og gætni, og ekki þyrfti að óttast atyrðingar frá næsta þingi, þótt stjórnin byrjaði framkvæmdir í þessu efni.

Þess vegna hefi jeg borið fram till. þessa, og tel sjálfsagt, að hún verði samþ.