04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

25. mál, kolarannsókn og kolavinnsla

Stefán Stefánsson. Það er öllum mönnum vitanlegt, hver hagur að því yrði, ef nothæf kol fyndust hjer í jörðu, og nú er svo komið að slíkt má líklegt telja.

Það var aðallega viðvíkjandi orðalagi till., sem jeg vildi segja nokkur orð. Þar stendur svo, að rannsaka skuli kolafundi í nánd við sjó. Þetta þykir mjer of takmarkað ákvæði.

Mjer er kunnugt um það, að langt upp til dala hafa fundist kolalög ekki óverulegri en í Stálfjalli, — um nothæfi skal jeg ekki segja.

Kol finnast fremur við sjó, og kemur það að líkindum af því, að þar hefir sjór brotið landið, svo að kolalögin koma þar af leiðandi fremur í ljós. Alllangt inn í Eyjafirði hefir nú fyrir skömmu fundist 5-6 metra þykt kolalag, og flutti jeg með mjer lítið sýnishorn af þeim kolum, og er það nú lagt hjer fram á lestrarstofuna.

Það er öllum kunnugt, að á Akureyri er ein af bestu höfnum landsins, og ætti því ekki að vera óaðgengilegra að vinna kolin þarna inn í Eyjafirðinum, þótt þau sje á að giska um 30 kílómetra frá sjó, heldur en t. d. í Stálvík, úr fjalli, þar sem engin höfn er. Mundi að sjálfsögðu minni kostnaður að leggja járnbraut þennan vegarkafla en gjöra sæmilega góða höfn í Stálvík. Þess vegna mun jeg við 2. umr. málsins bera fram brtt. til þess, að rýmka fyrir stjórninni um framkvæmdir í málinu. Annars lýsi jeg því yfir, að jeg er með till. og óska þess að hún verði samþykt.