09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

25. mál, kolarannsókn og kolavinnsla

Ráðherra Björn Kristjánsson:

Þetta mál er ekki nýtt hjer á Alþingi. í fyrra var samþ. till. hjer í deildinni, sem var líks efnis og þessi, sem nú liggur hjer fyrir. Eftir þeirri tillögu ætti stjórnin að gjöra áætlun um það, hvað mikið mundi kosta að framkvæma slíka rannsókn sem þessa, er hjer er farið fram á. En það er ekki neinn hægðarleikur að gjöra slíka áætlun. Menn vita ekki hvernig kolalögunum, sem hjer munu vera í jörð, er háttað. Þegar eitt lag er fundið, t. d. ofanjarðar, eins og hjer, þá leita menn að öðru neðar, eða fleiri lögum, því venjulega batna kolin, eftir því sem þau liggja dýpra. Þess vegna er eina leiðin, ef þingið hugsar til að taka að sjer slíka rannsókn, að veita árlega ákveðna fjárupphæð til að vinna verkið. Jeg get lýst yfir því, að jeg mundi leggja fram mína litlu krafta, til þess að sem mest gagn mætti leiða af þessarri rannsókn, því að þetta er gamalt áhugamál mitt, að þjóðin gæti fengið sem nánasta vitneskju um þau verðmæt efni, sem hjer kunna að vera fólgin í jörðu.

En jeg sje engin tök á að búa til nokkra áætlun, sem bygð væri á nokkuru viti, um þetta mál. Hjer munu finnast mjög víða í jörðu surtarbrandslög og kolalög, og mjer er kunnugt um slíka staði í öllum hlutum landsins. En ef ætti að rannsaka alla slíka staði og víðar, þá mundi það taka mjög langan tíma, og þyrfti sjálfsagt að fá til þess menn frá Englandi eða Þýskalandi, en slíkir menn munu nú ekki auðfengnir frá þeim löndum, og enn örðugra mundi reynast að fá verkfæri eins og nú standa sakir. En án jarðbora og annarra áhalda, er ekki hægt að rannsaka.

Mjer finst það liggja beinast við, að veitt verði í næstu fjárlögum fje til þess, að byrja á þessarri rannsókn, og það fje mætti ekki, að minni hyggju, vera minna en t. d. 20 þús. krónur á ári, og að lík upphæð yrði veitt í mörg ár.

Eitt vildi jeg enn benda á. Ef þingið ætlast til, að landið taki að sjer rannsókn þessa, þá mun þurfa að setja nýjan viðauka við námulögin, sem trygði landinu rjett yfir þeim námum, er finnast kynni.

Jeg vil heldur mæla með því, að till. verði samþykt, því að hún heldur málinu vakandi með þjóðinni. En hinu býst jeg ekki við, að það þurfi að vekja stjórnina, því að hún mun hafa fullan áhuga á þessu máli.

Jeg hefi fyrir nokkrum árum skrifast á við eftirlitsmann námanna á Saxlandi, hr Emil Trepow, og lofaði hann mjer þá, að hann skyldi láta mjer í tje allar upplýsingar í þessu efni, sem hann gæti. Nú veit jeg ekki nema hann sje fallinn eða dáinn, og verður þá að leita annarrar aðstoðar.