09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

35. mál, lán til garðræktar

Þórarinn Jónsson:

Jeg viJdi að eins með örfáum orðum taka í sama strenginn sem háttv. þm. S.-Þ. (P. J.). Álít jeg, að tillagan sje naumast frambærileg.

Háttv. flutnm. (B. J.) sagði, að ekki mundi um neina verulega fjárveitingu að ræða. En jeg lít öðruvísi á. Eftir till. tel jeg víst, að annarhver búandi maður á landinu gæti farið fram á lánveitingu, og mundi þá fjárveitingin geta orðið allmikil.

Ekki vil jeg samt með orðum þessum hnekkja till. sjálfri, en legg það til, að í henni sje ákveðið hámark lánveitinganna.

Jeg vil enn fremur leggja það til, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndar, og leitað verði síðan álits fjárveitinganefndar — ef tími vinst til.