09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

35. mál, lán til garðræktar

Pjetur Jónsson:

Háttv. flutnm. (B. J.) þótti jeg segja helsti lítið með því að komast svo að orði, að jeg teldi líklegt að tilgangurinn með till. væri góður, en það var það eina, sem jeg gat sagt um hana til hróss.

En þar sem umræður eru orðnar allmiklar um mál þetta, vil jeg leyfa mjer lýsa skoðun minni nánar. Það hefir nú í seinni tíð verið gjört allmikið að því á þessu landi, að ýta undir menn með garðrækt og annað fleira, en árangurinn orðið minni en skyldi, og hefi jeg því litla trú á slíku.

Það er á margvíslegan hátt reynt að styðja að ræktun landsins af hálfu hins opinbera og einstakra stofnana í landinu, og þar á meðal einnig að garðræktinni. Verð jeg að segja það, að jeg hefi ósköp litla trú á, að tilraun sú og aðferð, sem þessi tillaga fer fram á, gjöri þar nokkur veruleg áhrif. En þurfi eigi nema 30 kr. til að girða garð, eins og hv. flutningsmaður áætlar, þá er það svo hverfandi kostnaður, að ekki er þörf á opinberum styrk. Enda er það ekki fjárþröngin, sem eiginlega stendur garðræktinni fyrir þrifum, ef vjer að eins hefðum áhuga fyrir málinu. Sjálfur þekki jeg þetta atriði, og hefi reynslu fyrir því frá eldri tímum, þeim tímum, þegar harðærið gekk mest yfir Faxaflóa sunnanverðan. Og þá var ekki veitt lán eingöngu, heldur meira að segja veitt fje til styrktar garðrækt hjá þeim einmitt, sem sárastan liðu skortinn. En jeg hefi fengið fregnir um það frá mönnum, sem fyrir þessu gengust, að árangurinn hafi orðið sárgrætilega lítill, einmitt fyrir áhuga- og aðburðaleysi.

Nei, það þarf að vekja áhugann hjá þjóðinni til þess að nota eigin framreiðslu sem best, og það var stóri tilgangurinn í tillögunni.

Háttv. þingm. virtist jeg leggja of mikla áherslu á, að tillagan væri lausleg. Og það er satt; hún er lausleg og þarf ekki að benda á annað en t. d. það, að vilja fela Einari Helgasyni framkvæmd málsins svona fyrirsagnarlaust, en ganga fram hjá Búnaðarfjelagi Íslands, sem hefir meðal annarra Einar Helgason í sinni þjónustu. Ekki er heldur bent á, hverjar tryggingar eiga að vera fyrir lánum þessum. Það er þó auðvitað gjört við lánsheimildir í fjárlögum. Þær þurfa að vera sæmilega góðar, en þó ekki fráfælandi. (Bjarni Jónsson: Trúir ekki hv. þingm. stjórninni fyrir lánveitingafyrirkomulaginu.). Jú, jeg trúi henni fyrir því að vísu, en það er venja að setja ákvæði um tryggingarfyrirkomulagið, og það þarf að vera samræmi í þessum lánveitingum og öðrum, sem veittar eru í svipuðum tilgangi. Jeg get enn fremur bætt því við, að það kynni að vera íhugunarefni fyrir hv. nefnd, hvort svona lán ætti heldur að vera veitt úr landssjóði eða Ræktunarsjóði, sem hefir ræktunarmál landsins sjerstaklega til meðferðar.