18.12.1916
Neðri deild: 2. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

Minning Þórhalls biskups

Forseti:

Jeg vil leyfa mjer að minnast hjer með nokkrum orðum á biskup landsins, er ljest 15. þ. m., og munu allir samhuga um það, að þar eigum vjer á bak að sjá einum þeim manni, er mikið hefir kveðið að í sögu landsins á síðustu tímum.

Þórhallur Bjarnarson biskup var fæddur í Laufási 2. desember 1855. Lauk embættisprófi í guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla 23. janúar 1883 með 1. einkunn. Var veitt Reykholt í Borgarfirði 18. mars 1884. Prestvígður þangað 18. maí sama ár. Skipaður prófastur í Borgarfjarðarsýslu 7. júní sama ár. Veitt Akureyrarprestapall 19. mars 1885. Settur 1. kennari við Prestaskólann 28. ágúst sama ár. Veitt það embætti 24. febrúar 1886. Þjónaði dómkirkjuprestsembætti í Reykjavík (með aðstoð) 1889—1890. Settur forstöðumaður prestaskólans 10. janúar 1894. Veitt það embætti 30. maí sama ár. Riddari af Dannebrog 9. desember 1902. Dannebrogsmaður 31, júlí 1906. Hlaut prófessorsnafnbót 9. ágúst 1907. Skipaður biskup 19. september 1908. Vígður til þess embættis 4. október sama ár. Gaf út „Kirkjublaðið“ 1891—1897. Gaf út „Nýtt Kirkjublað“ frá 1906 til æfiloka. Var skipaður af konungi í milliþinganefnd í landbúnaðarmálum 4. mars 1904. Formaður landbúnaðarfjelagsins 1900—1907. Alþingismaður Borgfirðinga 1894—1899 og 1902—1907. Forseti Nd. 1897 og 1899.

Enn fremur mun það öllum kunnugt, að auk hinna margvíslegu starfa sinna annara, hefir hann unnið landinu mikið til hagsbóta sem forseti landbúnaðarfjelagsins. Mun það og einmæli, að hann hafi verið einn af mikilhæfustu mönnum þessa lands.

Vil jeg því skjóta því til háttv. alþingismanna, að þeir láti hluttekning í ljós og heiðri minningu hans með því, að standa upp.

Allir stóðu upp.