15.12.1916
Sameinað þing: 1. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

Rannsókn kjörbréfa

Skúli Thoroddsen:

Fyrsta kjörbrjefadeild hefir meðal annars haft til meðferðar kjörbrjef 1. þm. Árn. (S. S.) og rannsókn á kærum þeim, er borist hafa út af kosningu hans.

Kæra hefir borist frá einum frambjóðandanna í Árnessýslu, hr. Jóni Jónatanssyni fyrv. alþm. Hann krefst þess, að kosning þessa háttv. þm. (S. S.) verði gerð ógild, vegna þess að yfirkjörstjórn hafi við athugun framboða þeirra, er henni hefðu borist, ranglega úrskurðað framboð sitt ógilt, og þessi rangi úrskurður hafi getað haft áhrif á úrslit kosningarinnar í sýslunni — þau áhrif, að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefði ekki náð kosningu.

Umgetinn úrskurð sinn, byggir yfirkjörstjórn Árnessýslu á því, að framboð hr. Jóns Jónatanssonar hafi ekki fullnægt þeim skilyrðum, er kosningarlögin setji fyrir gildi framboða, þar sem hann hafi ekki á meðmælendaskjali sínu haft nema 11 lögfulla meðmælendur, í stað 12, er kosningarlögin fyrirskipi.

Kærandi heldur því fram, að yfirkjörstjórn hafi með þessum úrskurði tekið sjer „vald umfram það, sem henni sje ætlað að lögum“. Hann heldur því fram, að kjörstjórnin geti ekki vísað framboði frá, þar sem hún, samkvæmt ákvæðum gildandi stjórnarskrár og kosningarlaga, eigi ekki að leggja neinn dóm á það, hvort frambjóðandi uppfylli kjörgengisskilyrðin eða ekki. Það er auðvitað alveg rjett, að yfirkjörstjórn ber enginn rjettur til þess að dæma um kjörgengi þingmannsefnis. En það er bara sá gallinn á röksemdafærslu kæranda, að hún kemur ekkert því máli við, sem hjer ræðir um. Yfirkjörstjórnin er sem sje alls ekki með úrskurði sínum að meta það, hvort kærandi hafi verið kjörgengur eða ekki. Meðmælendafjöldi kemur kjörgenginu ekkert við. Hann gat verið kjörgengur meðmælendalaus og ókjörgengur með 100 meðmælendum. Nei! Yfirkjörstjórnin er að rannsaka það, sem henni bar skylda til að rannsaka, hvort skilyrðum þeim, er kosningarlögin, samkvœmt beinum fyrirmælum 10. gr. stjórnskipunarlaganna 1915, setja fyrir því, hvort ganga megi til kosninga um frambjóðanda, sé fullnœgt eða ekki. Og hafi kærandi ekki haft nema 11 lögfulla meðmælendur, þá hefir skilyrðum laganna, hjer að lútandi, ekki verið fullnægt. Þessa mótbáru á móti kosningu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) er því ekki hægt að taka til greina.

Þá vill kærandi halda því fram, að úrskurðurinn sje út í bláinn, þar sem yfirkjörstjórn hafi ekki vitað, er hún kvað upp úrskurð sinn, hvort 12. meðmælandinn, er hún taldi ógildan, hafi verið kjósandi eða ekki.

En hugtakið „kjósandi“ skýrir hann á þá lund, að það nái yfir alla þá menn, sem rjett eigi til þess að standa á kjörskrá, án tillits til þess, hvort þeir hafi verið á kjörskrá eða ekki. Jeg verð að telja þetta mjög svo hæpna lögskýringu. Þar sem kosningarlögin heimila þeim einum að neyta kosningarrjettar, er standa á kjörskrá, þá virðist það liggja í augum uppi, að þau eigi með orðinu „kjósendur“ við þá menn eina, sem samkvæmt heimild laganna mega nota þennan rjett. En hvað sem því líður, þá hlutu kjörskrár sýslunnar að vera sá eini mælikvarði, sem yfirkjörstjórn gat hjer farið eftir, þar sem engin gögn í mótsetta átt lágu fyrir henni, og hún þurfti að fara að undirbúa kosningarathöfnina, með prentun seðla o. fl. Það er líka síðar upplýst og játað af kæranda sjálfum, að maður sá, er hjer um ræðir hafi ekki haft rjett til þess að standa á kjörskrá í Árnessýslu. Þessi ástæða kæranda verður því heldur ekki tekin til greina.

Þá er það eitt af kæruatriðunum, að yfirkjörstjórn hafi, við opnun framboðanna, ranglega neitað að taka á móti tilboði tveggja tilgreindra manna um það, að gerast meðmælendur kærenda, Þessu hefir yfirkjörstjórn neitað, og þar sem kærandi hefir ekki fært nein gögn, hvorki vottorð nje annað, fyrir þessari staðhæfingu sinni, þá er ekki hægt að taka hana til greina gegn neitun hins aðiljans.

Loks segir kærandi, að yfirkjörstjórnin hafi gjört sig seka í ósamkvæmni og beitt hann misrjetti, þar sem hún hafi tekið gilt framboð háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem þó hafi verið gallað. Það framboð var stílað til sýslumanns í stað yfirkjörstjórnar, en var að öðru leyti fullkomlega lögformlegt. Og fyrst framboðið barst rjettum hlutaðeiganda í hendur áður en framboðsfrestur var útrunninn, þá virtist ástæðulaust af yfirkjörstjórn að taka það ekki til greina.

Kærandi hefir þannig, að dómi kjörbrjefadeildarinnar, ekki getað fært sönnur á að yfirkjörstjórn hafi haft nokkra lögleysu í frammi, og því er það tillaga deildarinnar, að kosning háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) verði tekin gild, þrátt fyrir kæru hr. Jóns Jónatanssonar. Að vísu hefði yfirkjörstjórn átt að sýna meiri bilgirni í þessu máli en hún hefir gjört, þar sem um svona lítinn galla á framboði var að ræða, en aftur á móti verður henni, hreint lagalega, ekki legið á hálsi fyrir það, sem hún hefir gjört.

Um hina kæruna, sem borist hefir frá nokkrum kjósendurn í Árnessyslu, álít jeg óþarft að tala. Jeg get í því efni látið mjer nægja að skírskota til hinna almennu athugasemda hátlv. þm. Dala. (B. J.). Að vísu hafa kjörstjórnir þær, er þar getur, gjört sig seka í lögbrotum, en þar sem það er sýnt, að þau gátu engin áhrif haft á kosningu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem var kosinn með stórkostlegum atkvæðamun, þá getur ekki komið til mála að ógilda kosningu hans vegna galla þeirra, er þar um ræðir.