15.12.1916
Sameinað þing: 1. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

Rannsókn kjörbréfa

Þórarinn Jónsson:

Háttv. þm. Dala. (B. J.) tók það ekki fram í framsögu sinni, að við vorum nokkrir í kjördeildinni, þótt fáir væru, sem vildum fresta því, að samþykkja kosninguna í Mýrasýslu.

Það má að vísu segja um misfellur þær, sem á eru kosningum yfirleitt, að þegar þær leiða ekki til annara úrslita við kosninguna, eftir því sem næst verður komist, þá sje sanngjarnt og rjett, að taka kosninguna gilda. En svo langt má þó fara í því, að Alþingi taki gildar kosningar þær, er misfellur eru á, að í öfgum lendi, og fer síst vel á því, að Alþingi gangi á undan í því, að taka gild hver lögbrot, sem miður hlutvöndum mönnum kann oft að geta dottið í hug.

Háttv. framsm. (B. J.) tók það fram, að kært hefði verið yfir því, að þingmannsefni hefði keypt sjer atkvæði. Taldi hann það þvaður eitt, og munu margir svo ætla. En einmitt fyrst slík ákæra hefir fram komið, ætti það að vera áhugamál þess þingmanns, er fyrir kærunni varð, að fá þetta rannsakað, og hrinda svo af sjer illmælum þessum.

Þess vegna var það tillaga okkar, að vísu fárra, að kæru þessari yrði vísað til kjörbrjefanefndar, eða hún ekki tekin gild þegar í stað. Þessari kæru er líka svo háttað, á annan veg en öllum öðrum, að hjer er það frambjóðandi sjálfur, sem brýtur lögin, og virðist það verra til afsökunar, en ýmsar aðrar misfellur, svo sem eins og rangar kjörskrár, sem sjaldan eða aldrei munu gjörðar með það fyrir augum, að ákveðnir menn verði í boði. En fyrir frambjóðendanum sjálfum, er ákveðinn tilgangur. Á það verður sjerstaklega að líta.