15.12.1916
Sameinað þing: 1. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

Rannsókn kjörbréfa

Framsm. 1. kjörbrjefadeildar (Bjarni Jónsson):

Jeg vildi að eins minnast á örfá atriði í ræðum tveggja háttv. þm. Jeg sje ekki þörf á langri ræðu; flestir munu hafa gjört sjer ljóst, hverjir ágallarnir eru, og hvað þeir ætli að gjöra.

Vil jeg þá fyrst nefna hv. 2. þm. Reykv. (J. M.), er ekki taldi það nóg, að menn segðust mundu verða fjarverandi, til þess að geta kosið fyrir kjördag. Jeg veit þá ekki eftir hverju hann hefir farið sem kjörstjóri, þegar menn komu til hans til kosninga, hverja skýrari sönnun hann hefir getað heimt en ummæli kjósenda. Það er líka svo, bæði hjer í Reykjavík og annarstaðar á landinu, að menn hafa kosið skriflega, vegna þess að þeir höfðu för ákveðna, þó eigi yrði af. Það er hægt að sanna þetta með ýmsum dæmum, og hvort kjósandinn hefir kosið að morgni kjördags eða fyr, fæ jeg eigi sjeð að gjöri neinn mismun, því að honum getur verið jafn ómögulegt að mæta á kjörfundi fyrir það.

Þetta var líka gjört á mörgum stöðum um land alt, er menn sáu, að hjer var um rjett mál að ræða, og því hefir það eigi kært verið. Hvað við víkur kærunni á háttv. þm. Mýra. (P. Þ.), sem hv. þm. Reykv. (J. M.) og háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), hafa talið sjerstaklega vítaverða, þá er það t. d. sannanlegt með mörgum vitnum þar upp frá, og sumum hjer, að 6 eða 7 menn, er kosið höfðu skriflega, höfðu fyrir löngu ákveðið að fara sjóveg yfir til Knararness, en þá skall á veður svo mikið, að þeir máttu ekki fara, og fæ jeg ekki skilið, að ónýta beri atkvæði þeirra, eða vita hreppstjóra fyrir. Þá sagðist háttv. 2. þm. Reykv. (J. M.) hafa heyrt það, að jafnvel einn hreppstjóri hefði látið heimilisfólk sitt kjósa að morgni, áður en hann fór á kjörfund. Þetta er rjett. Það stendur hjer í kærunni, að Jón hreppstjóri Guðmundsson á Valbjarnarvöllum (Sigurður Eggerz: Þetta er valinkunnur sómamaður) hafi látið konu sína og vinnukonu kjósa, áður en hann fór til kjörfundar, og var konan veik. Hefir hreppstjórinn sennilega misskilið lögin, og þarf eigi að ræða það mál lengi. Ekki er annað en að sekta hreppstjóra fyrir þennan ranga lagaskilning hans.

Þá eru þessi atkv., sem háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) hefir staðfest fyrir utan hrepp sinn. Það gjörði hann til að reyna að bæta óhapp það, er kjósendur urðu fyrir, þar sem enginn löglegur embættismaður var til á staðnum, er gæti staðfest kosning þeirra. Og þess ber að gæta, enda vissi hv. þm. það vel, og bjóst enda við því, að hver undirkjörstjórn gat ónýtt atkvæðin. íhreppi sínum tók hv. þm. (P. J.), sem hreppstjóri, ekki sæti í kjörstjórninni. (Þórarinn Jónsson: Hann gat það ekki). Jeg held þeir hefðu getað misskilið lögin líka á þá lund. — En hann (P. Þ.) benti kjörstjórninni á, að þessi atkvæði væru sennilega ónýt, en þá hreyfði enginn mótmælum, og kjörstjórnin gleypti við öllu saman.

Hvað er svo verið að amast við þessum kosningum ? Hvað er nú þetta, ef að er gáð? Ef alt er talið háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) í óhag, þá eru það 26 atkv., en mismunurinn er 64 atkv., og það sjá allir, að þótt þið dragið 26 frá 64, þá hefir þó háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) mörg atkvæði fram yfir keppinautinn. Það er því engin ástæða til að ónýta kosninguna, að gjöra kjördæmið þingmannslaust, þar sem enginn vafi leikur á um vilja kjósendanna, en rjelt er það, að vita það, sem aðfinsluvert er, og eins þar að beita sektarákvæðum kosningarlaganna.

Læt jeg svo útrætt um mál þetta, en þar sem landstjórnin hefir hlustað á mál mitt, þá tel jeg sjálfsagt, að hún viti misfellur þær, er fram hafa komið, svo að slíkt hendi eigi oftar; en jafn sjálfsagt tel jeg það, að háttv. Alþingi virði vilja kjósendanna, en gjöri ekki kosninguna ógilda fyrir það, að tveir hreppstjórar hafi misskilið kosningarlögin.