15.12.1916
Sameinað þing: 1. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 2. kjörbrjefadeildar (Magnús Guðmundss.):

Til þessarar kjörbrjefadeildar var vísað kjörbrjefum 13 þm., tveggja landsk. þm. og 11 kjördæmakjörinna. Þeir voru: Þm. Dala. (B. J.), 2. þm. S.-M. (B. St.), 2. þm. Árn. (E. A.), 2. þm. Eyf. (E. Árna.), þm. Snæf. (H. St.), þm. Barð. (H. K.), 5. landsk. (H. Sn.), 1. þm. N.-M. (J. J.), þm. Ísf. (M. T.), 3. landsk. þm. (S. J.), þm.N.-Ísf. (Sk. Th.), 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), l. þm. Húnv. (Þór.J.)og hefir nefndin rannsakað öll þessi kjörbrjef, nema kjörbrjef hv. 5. landsk. (H. Sn). Hann hafði gleymt kjörbrjefi sínu heima, en kjördeildin hefir sannfært sig um kosningu hans af gjörðabók landskjörstjórnar, er hún hefir haft með höndum, enda engin mótmæli komið fram gegn kosningunnni. Kjördeildin leggur því til, að kosning þessa manns verði samþykt nú þegar, og hið sama er að segja um kosningu þeirra 10 háttv. þm., sem hjer er um að ræða og ekki hefir verið kært yfir. Hins vegar hefir verið kært yfir kosningu tveggja manna í þessari kjördeild, en það eru háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) og 2. þm. Árn. (E. A.) og skal jeg því fara nokkrum orðum um kærur þessar.

Skal jeg fyrst víkja að kosningu hv. 2. þm. Árn. (E. A ) Um hana get jeg að mestu vísað til þess, er hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, er hann var að tala um kosningu hv. l. þm. Árn. (S. S.), að það sje ekki ástæða til þess, að fella hana úr gildi, vegna framboðs Jóns Jónatanssonar. Er jeg honum að öllu leyti samþykkur um það efni.

En auk þess er kært yfir því

1. að kjörstjórn í einum hreppi hafi leyft 4 mönnum að kjósa, sem ekki stóðu á kjörskrá.

2. að kjörstjórn í öðrum hreppi hafi bannað 2 mönnum að kjósa, er stóðu á kjörskrá.

Kjörstjórnir þessar hafa afsakað sig; hin fyrnefnda með því að þessir 4 menn hafi átt að vera á kjörskránni, en hin síðarnefnda með því að þessir 2 menn hafi ekki átt að vera á kjörskránni; en það er ekkert vafamál, að báðar þessar kjörstjórnir hafa skýlaust brotið 32. gr. kosningarlaganna. Þetta atriði er svo skýrt í greininni, að um það getur engum blandast hugur, sem á annað borð hefir lesið greinina. Kjörstjórnin getur ekki leyft neinum að kjósa, sem ekki stendur á kjörskrá, og ekki heldur bannað neinum að kjósa, sem stendur á kjörskrá.

Svo er enn eitt atriði. Þeim tveimur úr yfirkjörstjórninni, sem rituðu upp atkvæðatöluna, bar ekki saman um eitt atkv. Það var látið falla á 2. þm. (E. A.). Sameiginlegt við alla kærupóstana er það, að kjörstjórnirnar eiga sökina, en frambjóðendur ekki. Þá ber að gæta þess, að þótt öll þessi atkvæði hefðu fallið í óhag þeim, sem næst flest atkvæðin fekk, en í hag þeim, er þar var næstur að atkv.tölu, hefði það ekki raskað úrslitum kosninganna. Jeg geng því að því vísu, að þessi kosning verði tekin gild nú þegar, eins og hinar, enda er það tillaga kjördeildarinnar.

Þá kemur kæran um kosningu 2. þm. Eyf. (E. Árna.). Þar er líka kært yfir misfellum af hálfu kjörstjórna. Vil eg nú drepa á helstu atriðin.

Í einum hreppi var kosið í stóru herbergi og tjaldað um þvera stofu; sat kjörstjórn öðru megin tjaldsins, en kjósendur biðu fyrir framan. Var svo tjaldað fyrir eitt hornið hjá kjörstjórninni, en kjósendur fyrir framan höfðu getað sjeð hvernig menn kusu gegnum gat á tjaldinu. Hafði þó kjörstjórn verið bent á þetta, og hún bætt úr því þá þegar. Virðist þetta því eigi svo stórt atriði, að ónýta beri kosninguna fyrir það.

Á einum atkvæðakassanum hafði verið óglögt innsigli, að eins sjest eitt einasta E, sem er upphafsstafur í föðurnafni formanns yfirkjörstjórnar. Annars var innsiglið heilt og óskaddað, og virðist því eigi geta komið til mála, að þetta atriði ónýti kosninguna.

Í gjörðabók kjörstjórnar er það tekið fram, að lykillinn að atkvæðakassanum sje í innsigluðu umslagi, en er opnað var, kom í ljós, að svo var ekki. En með því að pokinn var innsiglaður, virðist mega líta svo á, að ummæli kjörstjórnar í gjörðabókinni geti til sanns vegar færst.

Nokkrir kjörseðlar voru stimplaðir með öðruvísi bleki en ætlast er til, bláu eða blágrænu, í stað þess, að stimpilblek það, sem ætlað er til kosninga, er svart. Þetta hefir komið víðar fyrir. Hefir líklega hið rjetta blek glatast á einhvern hátt.

Yfirkjörstjórn ljet búa til 24 seðlum fleira en útbýtt var til undirkjörstjórna. Formaður yfirkjörstjórnar kveðst raunar hafa brent þessa seðla, og færir því til sönnunar það, að kona á Akureyri hafi sjeð hann brenna þá. Nú kveðst konan að eins hafa sjeð hann brenna seðlaböggul, án þess að hafa sjeð, hvað hann hafði inni að halda. Þetta, að búa til fleiri seðla en nota þurfti, er brot á 20. gr. kosningarlaganna, og form. yfirkjörstj. hefði átt að eyðileggja seðlana í viðurvist hinna kjörstjóranna, og gera með því svo lítið úr brotinu, sem auðið var.

Þrátt fyrir þessi kæruatriði er kjördeildin sammála um að taka kosninguna gilda. En sjálfsagt er að ávíta kjörstjórnina, og sama ætti að gilda um kosninguna í Árnessýslu. Virðist auðsætt, að sú kjörstjórn, sem brýtur 32. gr. kosningarlaganna, hefir eigi lesið lögin, og er það stórvítavert. Till. deildarinnar er þá að öllu athuguðu sú, að kjörbrjef þau, er hún hefir fjallað um, verði samþykt nú þegar.