12.01.1917
Neðri deild: 26. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Bjarni Jónsson:

Það kemur hjer fram, sem oftar, að sitt á við hvern. Mundi jeg ekki hafa beygt mig fyrir áliti hæstv. stjórnar í þessu máli, en jeg finn mjer skylt að taka tillit til þess, sem fram hefir komið í háttv. deild.

Þykir mjer vafasamt, ef mál þetta kemur fyrir sameinað þing, að háttv. þingm. geti komist heim í tæka tíð, þeir sem helst ekki máttu að heiman fara, eftir því sem mjer skilst af heimfýsi þeirra.

Þá ber líka að gæta þess, að nú hafa þeir ágætu fjármálamenn, er hjer sitja, sjeð vel um efnahag landssjóðs, með »aukaskatti« þeim, er hjer hefir til umræðu verið og þeir vildu eigi ljetta af. Sje eg því ekki þörf til að leggja á bankann gjald þetta, þar sem hann er svo aumlega staddur.

Af þessum ástæðum og í samræmi við tvöfaldan vilja Alþingis mun jeg því greiða atkv. með frv. óbreyttu.