11.01.1917
Sameinað þing: 3. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

18. mál, rannsókn á hafnarstöðum

Pjetur Jónsson:

Mjer hefir skilist, að þetta þing hafi aðallega verið kallað saman til aðstoðar stjórninni á þessum ófriðartímum. Þetta var orsökin og þetta var aðalverkefni þingsins. Tillögur hafa einnig verið samþ. í þessa átt, er kostuðu stórfje. Samþykt hefir verið að kaupa skip, samþ. að fela stjórninni að sjá landinu fyrir nægilegum vörubirgðum, og í neðri deild hefir verið samþykt að bæta launakjör embættismanna. Þetta er alt sjálfsagt og nauðsynlegt. Þess vegna er enn meiri furða, hve mörg frumvörp hafa komið, sem eru til kostnaðar fyrir landið, án þess þó að standa nokkuð í þessu sambandi. Þetta dregur úr mætti stjórnarinnar til arðvænlegra framkvæmda. Áður hefir þingið falið stjórninni að rannsaka hafnarstaði og lendingarstaði, og undirbúa fyrir framtíðina. Jeg hygg því, að þessi tillaga sje lítilsvirði í sjálfu sjer, nema ef nú á að eyða fje til þessa, en sje þó litla þýðingu muni hafa að hindra framgang hennar, úr því sem komið er. En jeg vil taka það brýnt fram og áminna stjórnina, að láta ekkert smávegis sitja fyrir aðalmálunum.