11.01.1917
Sameinað þing: 3. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

18. mál, rannsókn á hafnarstöðum

Gísli Sveinsson:

Sökum þess, að jeg á eitt atriði í þessari tillögu, get jeg ekki látið hjá líða að segja nokkur orð.

Tillagan kom frá nefnd í hv. Nd., sjávarútvegsnefndinni, og henni fanst ástæða til þess að taka þetta mál upp. — Annars er það eftir dúk og disk að hv. þm. S.-Þ. (P. J.) kemur með þessar athugasemdir sínar, þar sem tillagan hefir gengið gegn um báðar deildir, en að eins sökum smávægilegra breytinga í Ed., kemur hún hjer í sameinað þing til umræðu. Mjer finst það alveg ófyrirsynju, að skora á stjórnina að láta hjá líða að framkvæma þessa till., þar sem líka till. bindur henni engan bagga, en fer að eins fram á, að þetta sje gert, svo framarlega að hægt sje. Hjer er heldur ekki farið lengra en það, sem þingið hafði áður farið, heldur skemra. Það hefir samþykt 1915 að fá sjerfróðan mann til að rannsaka alla lendingarstaði hjer við land. Þessi tillaga er að eins framhald af þeirri till., og hjer er stjórninni að eins bent á, hvar sje brýnust nauðsynin.

Jeg er samþykkur því, er háttv. þm. (P. J.) sagði í niðurlagi orða sinna, að ekki þýddi fyrir hann að fara að rökræða þetta mál nú, hafandi þagað áður, er till. lá fyrir, og því best að láta tillöguna ganga sinn gang óáreitta.