13.01.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Framsm. fjárveitinganefndar Nd. (Gísli Sveinsson):

Jeg vil leyfa mjer, sem framsögumaður þessa máls í Nd., að lýsa ánægju minni yfir því, að það er hingað komið í sama formi og það var í öndverðu. Jeg sje ekki betur en till. hafi verið á fullum rökum bygð og að fjárveitinganefnd Nd. hafi komist að eins rjettlátri niðurstöðu og auðið var, þó að hv. Nd. fyndist ástæða til að breyta henni, enda hefir hv. Ed. ekki sjeð sjer fært að gjöra betur. En jafnframt skal jeg þó játa, að þrátt fyrir allan vilja nefndarinnar, hefir enn ekki verið hægt að ná í fylsta rjettlæti. þetta mál er líka þann veg vaxið, að við því var aldrei hægt að búast, að unt væri að gera öllum til hæfis; en menn mega þó vera ánægðir með till. nefndarinnar, eftir ástæðum og atvikum. Hún er rjettlátasta till., sem fram hefir komið í málinu.

Með því að engar breytingartill. liggja hjer fyrir Sþ., sje jeg eigi ástæðu til að lengja frekar umræðurnar. Jeg vil þá lúka máli mínu með þeim tilmælum fyrir hönd nefndarinnar, að nafnakall fari fram um málið.