13.01.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Sigurður Sigurðsson:

Jeg tók það fram, þegar málið var til umræðu í Nd., að það væri svo umfangsmikið, að þingið hefði átt að fela það stjórninni á hendur til næsta þings, og að þá ætti að taka það til meðferðar. Það hefir líka komið í ljós, að þetta mál er ekki eins einfalt og sumir hjeldu. Till. nefndarinnar hefir að vísu þann kost til að bera, að hún er einföld og hagfeld til framkvæmdar. En að öðru leyti er hún sá breiði vegur, sem liggur til mikilla útgjalda fyrir landssjóð. Og jeg tel varhugavert, að þingið fari að leggja leiðir sínar inn á slíkar brautir.

Jeg hefi alt af sagt og segi enn, að dýrtíðaruppbótin er alt of há og nær til of margra. Þar rignir jafnt yfir rjettláta og rangláta. Og það er einmitt þetta, sem jeg tel óheppilegt, að uppbæturnar ná til allra jafnt, hvort sem þeir hafa mikil eða lítil störf á hendi í þarfir landssjóðs. Till. gerir heldur engan greinarmun á einhleypum mönnum og þeim, sem fyrir mörgum hafa að sjá. En af því hjer er um að ræða uppbót vegna hækkandi verðs á öllum lífsnauðsynjum, þá finst mjer alt rjettlæti mæli með því, að þessi uppbót sje mismunandi eftir efnum og ástæðum. Jeg kannast fúslega við það og finst öll sanngirni mæla með því, að föstum starfsmönnum landssjóðs sje veitt einhver uppbót. En með því að eigi hefir verið tími til að útbúa viðunanlegan mælikvarða eða till. í þessa átt, get jeg eigi ljeð till. þeirri, sem hjer liggur fyrir, atkvæði mitt, og vil því mælast til þess við hv. forseta, að málinn verði vísað til stjórnarinnar.