13.01.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Þórarinn Jónsson:

Það, sem kemur mjer til að standa upp, er framkoma tveggja hv. þm. úr fjárveitinganefnd neðri deildar. Þeir undirskrifuðu nefndarálitið með fyrirvara, og við það var ekkert að athuga í sjálfn sjer. En fyrst um svona mikinn skoðanamun var að ræða, hefði verið drengilegra af þeim að kljúfa nefndina, og hvað viðvíkur háttv. 1. þm. Norðmýlinga (J. J.), þá var hann víst eindregið með þessum mælikvarða, en gjörði að eins viðaukatillögu, sem hann tók svo aftur. Hefðu þessir menn klofið nefndina og borið fram nýjar tillögur, voru miklar líkur til að málið hefði orðið betur brotið til mergjar. En þetta hafa þeir ekki gjört. Vjer vitum, að fram hafa komið brtt. En þær brtt. hafa ekki getað raskað sannfæringu þeirra, er telja nauðsyn á að veita uppbótina. Enda eru breytingartillögur sjaldnast þess eðlis, að með þeim standi eða falli mál. Og voru síst hjer. Jeg hafði gjörst meðflutningsmaður að einni brtt. En þótt hún sje nú fallin, get jeg ekki orðið því fylgjandi að fella málið, sem jeg álít, að eigi fram að ganga í einhverri mynd. Jeg er ekki ánægður með mælikvarðann, eins og jeg hefi áður tekið fram, en hefi ekki haft tíma til, í öllu flaustrinu, að koma fram með brtt., er jeg álíti til verulegra bóta, og verð því að sætta mig við það eins og það er.

Jeg tel ekki bót í því, að vísa málinu til stjórnarinnar, eins og hv. 1. þm. Árn. (S. S). vildi leggja til. Sje málið svo erfitt viðfangs, sem margir vilja álíta. mun hún eigi getað ráðið því til lykta fyrir næsta þing. En jeg varð að líta svo á, að nú þegar þurfi að veita þessa uppbót. Hjer verður að velta á því, hvort landssjóður eigi að rjetta starfsmönnum sínum hjálparhönd eða ekki. Eigi að gera það, verður það að vera þegar þörfin krefur.

Jeg býst við því, að næsta þing gjöri nauðsynlegar umbætur á þessu máli. Og þótt embættismenn hafi mestmegnis um málið fjallað, býst jeg við, að þeir hafi gjört það með fullri samviskusemi og rjettlætistilfinningu. Hv. framsm. Nd.-nefndarinnar (G. Sv.) hefir lofað mjög verk hennar, en þótt jeg telji, að það sje eigi lýtalaust og fullkomið, mun jeg þó greiða atkvæði með tillögunni af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi tekið fram.