06.01.1917
Efri deild: 13. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Ráðherra Sigurður Jónsson:

Jeg vil leyfa mjer að geta þess, að þetta mál, sem tekið var út af dagskrá í gær, hefir komið til umræðu í hinu nýja ráðuneyti og fekk þar þær undirtektir, að eftir atvikum væri eigi ástæða til að þessi háttv. deild legðist á móti málinu. Sýndist oss lítil hætta á, að misbrúkun yrði höfð í frammi, enda væri hún lítt hugsanleg, þar sem seðlaaukningin er ætíð komin undir samþykki hlutaðeigandi stjórnar. Ætti því stjórninni að vera innan handar að útiloka alla áhættu. í sambandi við þetta vil jeg enn fremur vekja athygli deildarinnar á brtt. nefndarinnar, sem vænta má að samþykt verði.

Það sem háttv. þm. Vestm. (K. E.) sagði um þetta mál, fanst mjer snerta mest framtíðina, en eins og málið liggur hjer fyrir get jeg ekki annað sjeð en að það snerti yfirstandandi tíð. Annars er jeg háttv. þingmanni fyllilega sammála um, að ekki beri að rasa fyrir ráð fram í þessu máli heldur fara sem gætilegast að öllu.