08.01.1917
Efri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Magnús Torfason:

Jeg stend eigi upp af því, að jeg ætli mjer að hafa áhrif á afdrif málsins, enda býst jeg við, að þau sje sköpuð, þar sem hæstv. ráðherra (S. J.) lýsti yfir óskoruðu fylgi stjórnarinnar við málið. Það, sem sjerstaklega gjörir það að verkum, að jeg kveð mjer hljóðs, var það, að við síðustu umr. þessa máls hjer í hv. Ed., var sagt, að sönnuð hefði verið brýn nauðsyn á, að gefa út bráðabirgðalögin frá 29. sept. 1915.

Háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) lagði áherslu á, að hann áliti, að ekki hefði verið sönnuð sú brýna nauðsyn á að gefa út þessi bráðabirgðalög 29. sept. 1915, og jeg fyrir mitt leyti verð að vera sömu skoðunar; finst sönnun hafi ekki legið fyrir. En hún átti að liggja fyrir sakir heimildar í lögunum 9. sept. 1915, um 1 miljónar seðlaaukning „í mesta lagi“. Þau orð verður að skoða sem nokkurskonar pólitískt bann gegn bráðabirgðalögum á þessu sviði. Nauðsynin yrði að vera enn ríkari en ella, eða alveg óhjákvæmileg.

Saga þessa máls er sú, að 9. september eru samþykt lög, er heimila Íslandsbanka að gefa út 1 miljón seðla umfram það, er hann hefir heimild til að gefa út samkvæmt eldri bankalögum. 15. september eru þinglausnir, og þá var ekkert komið fram, er sýndi fram á, að þörf væri meiri aukningar, en 29. sept. — eða að eins 14 dögum eftir þinglausnir — eru svo gefin út þessi bráðabirgðalög.

Þar sem menn á þessum tíma árs verja tiltölulega litlu fje í framleiðslufyrirtæki, því að þá er komið einskonar haustdá yfir menn, virðist helsta ástæðan til þessara bráðabirgðalaga, hafa verið kröfur frá erlendum bönkum um, að bankinn borgaði út fyrir sig fje fyrir íslenskar afurðir, en jeg fæ ekki betur sjeð, en að bankanum hefði átt að vera innan handar, með hliðsjón af reynslu fyrirfarandi ára, að inna af hendi þessar greiðslur, með því að ná í seðla frá Kaupmannahöfn, ef hann hefði hugsað um það í tíma. Og jeg tel mjög efasamt, að nokkuð af þeim viðskiftum, er hjer getur verið um að ræða, hefðu fallið niður, þótt seðlamergðin hefði ekki verið aukin.

Jeg tek þetta ekki fram vegna þess, að jeg vilji sakast um orðinn hlut, enda þessi bráðabirgðalög nú úr gildi gengin, heldur til þess, að styðja á það, að nauðsyn til bráðabirgðalaga á að vera ber og augljós.

Að því er snertir lög þau, er hjer liggja fyrir, þá er ótakmörkuð seðlaútgáfuheimild gefin bankanum 18 maí, en jeg verð að líta svo á, sem það sje mjög hæpið, að slíkrar aukningar hafi verið þörf þá, vegna viðskiftalífsins, því að það er fyrst 8. júní, að bankinn notar heimildina og gefur út samkvæmt henni ½ miljón kr. í seðlum; næstu ½ miljón gefur hann út 13. sept., eða nær fjórum mánuðum eftir að lögin 18. maí voru gefin út. Það virðist því svo, sem ótakmörkuðu heimildarinnar hefði eigi þurft fyr en síðast í ágúst eða fyrst í september.

Í ástæðum þessara síðarnefndu bráðabirgðalaga, um ótakmarkaðan seðlaútgáfurjett, er skírskotað til þess, að slík ákvæði gildi um þjóðbanka Dana, en jeg vil taka það fram, að eftir því, sem jeg veit best, er ekki hægt að bera þetta saman sem stendur, því jeg veit ekki betur en að gullið, sem á að vera hjer að tryggingu, sje geymt í Kaupmannahöfn.

Þessi skírskotun er því ekki rjett. Það væri rjett líking, ef stjórn Dana leyfði það, að gullforði Þjóðbankans þar væri geymdur suður í Hollandi eða á Spáni eða yfir í Ameríku.

Annað mál er, að á meðan Danir komast ekki í ófriðinn, er engin hætta, þótt gullforðinn sje geymdur þar, og með því að bankinn hefir á þessum tíma, þegar seðlar voru mest í veltu, átt talsvert meira fje inni erlendis, dregur það mikið úr hættunni.

Þá vil jeg taka það fram, að þegar jeg gef þessu frv. atkvæði mitt, þá er það með því fororði, að með þessu sje ekki skapað neitt fordæmi; þetta sje hrein ófriðarráðstöfun.

Jeg lít svo á, að við sjeum skyldir til að auka og styrkja Landsbankann, og að við sjeum skyldir til, að gjöra ekki neitt það, er geti staðið honum fyrir þrifum á nokkurn hátt. En þessi seðlaaukning eykur viðskifti Íslandsbanka að miklum mun, og raskar hlutföllunum á milli bankanna, og það tel jeg ekki rjett til frambúðar, því að mín skoðun er, að það sje skylda þingsins, því að eins að auka rjett Íslandsbanka, að rjettur Landsbankans aukist tiltölulega jafn mikið.

Og þetta er eitt af þeim málum, er landsstjórnin verður að athuga og undirbúa, þegar er tímar leyfa.

Í þessu sambandi vil jeg minnast á till. á þgskj. 62, um skipun bankastjórnarinnar.

Þar er farið fram á, að það skilyrði verði sett, er bankastjóri verður skipaður, að hann megi ekki taka opinberan þátt í stjórnmálum.

Mjer skilst svo, sem að með þessu sje takmarkaður rjettur Landsbankans til að hafa fulltrúa hjer á hæstv. Alþingi. (Forseti: Það mál er ekki til umræðu). Jeg veit það, og skal ekki fara langt út í það efni, og gjöri það að eins með tilliti til þessa máls. Það er styrkur fyrir báða bankana að hafa hjer fulltrúa, og jeg hjelt, að ekki væri of mikið af bankaviti á þingi, þó að ekki væri gjörður leikur að því, að bola því á burt. Jeg veit líka, að hv. 1. landsk. þm. (H. H.), samkv. fyrri stefnu sinni, er ekki á neinn hátt riðinn við þessa tillögu.

Jeg greiði svo frv. atkv., með fullu trausti þess, að framhald verði á þeirri góðu fjárstjórn bankans, sem verið hefir um sinn, og að stjórnin noti þessi heimildarlög með fylstu varúð.