08.01.1917
Efri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Framsm. (Hannes Hafstein):

Það var eitt atriði í ræðu háttv. þm. Ísf. (M. T.), sem jeg gleymdi að minnast á áðan. Hinn háttv. þingmaður ljet í ljós þá skoðun sína, það væri röng kredda, að bankastjórar ættu ekki að eiga sæti á þingi, og gat þess jafnframt til, að jeg myndi vera samdóma honum í þessu atriði. Þar átti háttv. þingmaður vissulega kollgátuna.

Þessi skoðun, að bankastjórn megi ekki eiga sæti á Alþingi, hefir fylgt sumum mönnum sem einskonar erfðasynd. Þegar Tryggvi Gunnarsson fyrv. bankastjóri, var alþingismaður, hamaðist blaðið Ísafold og, ef mig minnir rjett, núverandi bankastjóri Landsbankans, háttv. 1. þm. G -K. (B. K.), á móti slíkri „ósvinnu“, eins og heill og hagur allrar þjóðarinnar væri í háska staddur, ef bankastjórar sætu á þingi. Síðan varð þessi háttv. þingmaður sjálfur bankastjóri Landsbankans, án þess að hætta þingmenskunni, sem og betur fór. Þá snerist fljótlega við blaðið. Og ekki leið á löngu áður en ýmsir menn, sem áður höfðu verið verjendur þess að bankastjóri Tr. G. sæti á þingi, snerust nú öndverðir móti því, að B. K. sæti á þingi, nema því að eins, að hann legði niður bankastjórnina, eða þá hinu, að hann væri bankastjóri, nema hann hætti við þingmenskuna.

Nei, það er engin ástæða til að meina bankastjórum að eiga sæti á þingi. Dómarar hafa leyfi til þess. Hvers vegna þá ekki bankastjórar ? Mjer finst þvert á móti nauðsynlegt fyrir landið að hafa á þingi menn, sem vit hafa á bankamálum og fjármálum yfirleitt, og þenna mótþróa gegn bankastjórum á þingi hefi jeg aldrei álitið annað en dægurflugur í hinu pólitíska flugnageri.