12.01.1917
Efri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Framsm. (Hannes Hafstein):

Hæstv. forseti hefir skýrt frá því, að þegar þessum fundi er lokið, eigi enn að halda 3 fundi í dag í efri deild, og er því ekki tími til að vera langorður á þessum fundi.

Hv. þingmönnum mun vera það kunnugt, að Nd. hefi breytt 1. gr. frv. frá því, er það var afgreitt hjer í deildinni.

Í gærkveldi, þegar frv. þetta var til umræðu í hv. Nd., og engan varði annað en að frumvarpið mundi verða samþ. óbreytt, kom alt í einu fram í miðri umræðu brtt. frá nokkrum þingmönnum, um að hækka landssjóðsgjaldið af hinum útgefnu seðlum um helming, frá því er hjer hafði verið samþ., setja það upp í 4% í stað 2%, af seðlum í umferð.

Þessi tillaga var samþ. umræðulaust svo að segja, og, að því er, virtist án þess, að menn gjörðu sjer ljóst hvað í tillögunni lá, eða hvað af henni myndi hljótast, ef samþykt yrði.

En svo munu hv. flutningsmenn hafa áttað sig á því, að þessi breyting væri ekki vel heppileg, og kom þá fram við 3. umr. breytingartillaga frá sömu mönnum, að færa þessi 4% niður í 3%, og var það samþ. En jafnframt var því lýst yfir af annari hálfu, að mjög margir hv. þingmenn í Nd., sem greitt höfðu atkvæði með hækkuninni við 2. umr., væru við nánari yfirvegun komnir að þeirri niðurstöðu, að rjett væri, að færa gjaldið niður í það, sem upphaflega var í frv., eða í 2%, þótt þeir kæmu ekki þá fram með brtt. í þá átt, vegna asa þess, sem á málinu var hafður. En þeir gengu að því sem vísu, að þessi hæstvirta efri deild mundi lagfæra þetta, og setja frv. í samt lag, svo að málið kæmi niður til Nd. aftur.

Þeir hv. þingmenn, sem báru fram tillöguna um hækkun gjaldsins, munu hafa litið svo á, að seðlaaukningin mundi ætluð aðallega til aukinna útlána eða annara „gróðabragða“ fyrir bankann. En þetta er bygt á misskilningi. Það er ekki farið fram á seðlaaukningarheimild vegna aukinna útlána, heldur aðallega til þess, að geta int af hendi innanlandsgreiðslur fyrir erlenda banka, eins og jeg gat um við 1. umr. málsins, sem borga þarf Íslendingum fyrir afurðir sínar, ull, kjöt, fisk, dún o. s. frv., og það er íslenskum framleiðendum afarmikill hagur, að geta selt vörur sínar hjer, gegn greiðslu hjer, í stað þess, að neyðast til að senda þær út óseldar, og eiga alt, bæði verðhæð og borgun andvirðis, undir eftirkaupum við útlenda umboðsmenn, eða erlenda spekúlanta. Þessi seðlaaukning er því miklu fremur til hagnaðar fyrir landsmenn, heldur en fyrir bankann. Hagnaður sá, sem bankinn fær af henni, eru ekki auknir útlánsvextir, heldur að eins „provision“, sem hlutaðeigandi bankar, er útborgunarinnar beiðast, greiða, og er hún stundum mjög lítil tiltölulega.

Á 11 fyrstu mánuðum ársins 1916 borgaði Íslandsbanki þann veg út fyrir erlenda banka 10 miljónum meira en fyrir árið 1916 eða nákvæmlega 22 milj. 748 þús. kr. árið 1916, í stað 12 milj. 492 þús. árið 1915, eins og jeg hefi áður skýrt frá hjer í deildinni, og það er þetta, sem aðallega knýr fram seðlaaukning. Þegar þessu er þann veg farið, er auðsætt, að það getur ekki átt við rjett rök að styðjast, að láta bankann greiða afarhátt landssjóðsgjald af seðlaaukningu, auk þeirra byrða, sem gullforðatryggingunni fylgir.

Aukning á seðlamagni bankans er skilyrði fyrir því, að landsmenn geti fengið fult verð fyrir afurðir sínar og að verslunin geti haldið áfram að færast inn í landið. En svo framarlega sem bankanum er gjört ókleift að gefa út nauðsynlega seðla, með of miklum greiðslukvöðum til landssjóðs af hinum útgefnu seðlum, þá leiðir þar af ekki að eins það, að Íslandsbanki verður að neita greiðslum fyrir erlenda banka, heldur mundi einnig leiða það, að bankinn yrði að afsala sjer rjettinum samkvæmt lögunum frá 1915 til útgáfu 1 miljónar, vegna kvaðarinnar, sem fylgir þeim rjetti, að inna ókeypis af hendi innanlands greiðslur einnig fyrir Landsbankann eftir ávísun útlendra banka; en þær greiðslur numu árið sem leið hálfri þriðju miljón króna, eins og áður hefir verið skýrt frá. Til þess að sleppa við þessa kvöð, sem að þunga stendur ekki í neinu sennilegu hlutfalli við rjettinn til þess, að gefa út eina miljón í seðlum móti 50% gullforða og 2% gjaldi í landssjóð, mundi bankinn verða að reyna, að fá sjer danska og norska seðla til eigin þarfa, og draga inn þá íslensku seðla, sem hann enn hefir úti, samkvæmt nefndum lögum frá 1915. En slíkt væri hvorki landssjóði nje landsmönnum til hagnaðar nje heiðurs, enda ekki víst nema aðflutningur útlendra seðla gæti tepst eða tafist, vegna styrjaldarinnar, eins og háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) benti á í Nd. í dag.

Jeg vona því, að hæstv. Ed. fallist á brtt. Jeg er ekki í vafa um, að ef málið kemur aftur til Nd., mun hún fallast á 2%.