12.01.1917
Efri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

4. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Sigurður Eggerz:

Það er að eins stutt athugasemd.

Mjer virðist ekki rjett að gjöra „conflict“ við hv. Nd. út af þeirri 1%, sem hjer ber á milli. Frumvarpið í þeirri mynd, sem það nú er, er samþ. með 19 atkv. í hv. Nd. Og jeg fæ ekki skilið að sú l%, sem hjer ræðir um, geti haft eins alvarleg áhrif á viðskiftalíf bankans og mjer heyrðist á hv. 1. landsk. þm. (H. H.). Hjer er þó varla að ræða um meira en 10 þús. kr. spursmál. Og mjer skilst, að jafnvel þó að kostnaðurinn við seðlaútgáfuna væri svo mikill, að af henni yrði ekki beinlínis gróði fyrir bankann, eða jafnvel smátap, að þá muni hagnaðurinn fyrir bankann, af því að geta haldið viðskiftaveltu sinni í eins stórum stíl og nú á sjer stað, eða í stærri stíl, vera svo mikill, að 1% spursmál verði algjörlega hverfandi í því sambandi. Annars skal jeg taka það fram, að langt er frá því, að jeg vilji sýna Íslandsbanka neina meinbægni, og skilst mjer, að í sjálfu sjer sje engin hætta á ferðum, þótt bankinn fái heimild til að auka seðlafúlgu sína, ef aukningin er hæfilega gulltrygð. Að gefnu tilefni annarsstaðar frá, þá minntist hv. 1. landsk. (H. H.) á, að samkv. áliti sumra, væri hætta á, að flytja danska seðla hjer inn í stórum stíl, vegna Norðurálfuófriðarins, en til þess yrði þó að taka, ef neitað væri, með hæfilegum skilyrðum, um aukinn seðla útgáfurjett. Í þessu sambandi vildi jeg leyfa mjer að minnast á, að árið 1914, þegar Íslandsbankaseðlar voru gjörðir óinnleysanlegir, var svo ákveðið, að gullforðann skyldi geyma innsiglaðan í landinu, til nauðsynlegra ráðstafanna landinu til handa á stríðstímunum. Síðan hefir mikið verið gefið út af seðlum. En mikið af þeim gullforða, sem átti að vera handbær, ef á þyrfti að halda, er eftir því sem sagt er, ýmist geymdur í Danmörku eða annarsstaðar. Ef Danir lenda í ófriðnum, getur okkur stafað hætta af þessu, ekki síður en af seðlunum dönsku. Og verður að telja þessar ráðstafanir fyrri stjórnar mjög athugaverðar, því engar sannanir hafa verið færðar að því, að ekki hafi verið hægt að flytja gullforðann inn í landið. Á seinustu tímum mun að vísu hafa verið útflutningsbann á gulli frá Danmörku, en jeg hefi fyrir satt, að alt af hafi mátt fá leyfi til að flytja gull til Íslands.