05.01.1917
Efri deild: 12. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

6. mál, bakarabrauð

Framsm. (Karl Einarsson):

Frumvarp þetta, sem liggur hjer fyrir, var gefið út sem bráðabirgðalög 16. nóv. 1916, og var það gjört eftir málaleitun frá bæjarstjórn Reykjavíkur. Þótti það upplýst, að brauðin væru mjög misjöfn að þyngd, þótt sama gjald væri tekið fyrir þau.

Nefndin áleit að sjálfsagt væri að samþykkja frumvarp þetta; en jafnframt skal jeg fyrir mitt leyti taka það fram, að jeg álít, að ekki hefði verið þörf á því, að gefa út bráðabirgðalög um þetta svo stuttu fyrir þing. Þetta segi jeg að eins fyrir mig sjálfan, en ekki fyrir nefndarinnar hönd. Nefndin hefir leyft sjer að koma fram með 3 smábreytingartillögur, sem jeg hygg að miði til bóta. Breytingartillögurnar bera það með sjer sjálfar, að þær miða að eins til að gjöra ákvæði frumvarpsins skýrari og fyllri, og vísa jeg til nefndarálitsins, þingskjals 58, um þetta, og hefi eigi öðru við að bæta, en vona að þær og frumvarpið verði samþykt af háttv. deild.