29.12.1916
Efri deild: 8. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Ráðherra (Einar Arnórsson):

Jeg vildi að eins gjöra örlitla athugasemd við ræðu háttv. þm. Snæf. (H. St.) við 1. umræðu þessa máls. Háttv. þingm. sagði, að ef störf stjórnarinnar hefðu vaxið svo við stríðið, að þörf hefði verið til að fjölga ráðherrum, þá hefði stjórnin átt að kveðja þing fyr saman. Við þessu er því að svara, að á Alþingi 1915 bar landsstjórnin fram frv. um fjölgun ráðherra, en af einhverri ástæðu var það þá afgreitt með rökstuddri dagskrá, eða með öðrum orðum moldað. En þingið vildi þá eigi fjölga ráðherrum, því þótt stjórnin gjörði að eins ráð fyrir tveimur ráðherrum, en þingið vildi hafa þrjá ráðherra, þá var það ekkert annað en marklaus fyrirsláttur, og hafa oft verið gjörðar erfiðari brtt. á þinginu. Nú hefir þing verið kvatt saman, og það var gjört svo fljótt, sem unt var eftir kosningarnar, þótt það væri ekki gjört með sjerstöku tilliti til þess máls.

Þá vildi jeg minnast á eitt atriði í ræðu háttv. þm. Ísf. (M. T.). Mjer skildist svo, sem hann vildi svara einu atriði í aths. við frumvarpið. Mjer ber í sjálfu sjer ekki að svara þessu, þar sem jeg ber enga ábyrgð á athugasemdunum, en að efni mun þetta hafa verið tekið upp eftir aths. þeim, er jeg ljet fylgja frv. 1915. En öll ræða háttv. þm. Ísf. (M. T.) var bygð á misskilningi, því að eins og aths. er orðuð, þá á hún eigi að eins við styrk stjórnarinnar til að skipa embættismenn og veita þeim lausn, heldur getur og þessi styrkur stjórnarinnar legið í mörgu öðru. Eins og háttv. þm. veit, þá gjöra embættismenn oft og einatt margar tillögur til stjórnarinnar um ýms mál. Þegar einn maður situr í stjórnarsessinum má ekki búast við því, að hann hafi sjerþekkingu á öllum þeim atriðum, er þar koma til greina. En það má búast við því, að þegar stjórnin er skipuð þremur mönnum, þá hafi hún betri tök á að rannsaka og meta tillögur þær, er henni berist frá undirmönnum hennar. Og það er mikill styrkur fyrir landsstjórnina. Hún þarf þá síður, ef svo má að orði kveða, að gleypa alt hrátt og ómelt, sem henni berst frá undirmönnum sínum. Þótt stjórnin verði að vísu ekki „júridiskt“ styrkari með 3 en 1 ráðherra, þá verður hún, ef svo mætti segja, „intellektuelt“ og „moralskt“ styrkari gagnvart undirmönnum sínum.

Um brtt. hv. þm. Ísf. (M. T.) vil jeg að eins taka það fram, að jeg lít svo á, að í sama stað komi, hvort hún er samþ. eða feld. Það gjörir engan mismun.

Ef svo fer að ráðherra verður síðar aðeins einn, þá vekst landritaraembættið aftur upp, hvort sem tillagan er samþykt eða ekki, og ef þriggja ráðherra skipulagið helst, þá er landritaraembættið jafnt horfið úr sögunni, hver sem forlög breytingartillögunnar verða.