29.12.1916
Efri deild: 9. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Magnús Kristjánsson:

Að eins örstutt athugasemd út af orðum hv. 2. landsk. þm. (S. E.). Hann hjelt því fram, að það hefði engin vandkvæði verið á því, að mynda stjórn með einum ráðherra. En jeg verð að líta alt öðruvísi á það, og tel enga vissu, að slíkt hefði getað átt sjer stað. Enda kom það greinilega fram við kosningu forseta sameinaðs þings. Það hljóta allir að sjá, að þótt í svipinn sje hægt að fá loforð helmings þingmanna, um að þeir amist ekki við manninum, þá er það algjörlega ófullnægjandi, svo að stjórn geti staðist, eða stjórnað svo í lagi sje. Jeg get því ekki sjeð, að það sje á rökum. bygt, að engin vandkvæði hafi verið á, að fá stjórn skipaða á þann hátt, sem. hv. 2. landsk. þm. (S. E.) gat um. Hitt viðurkenni jeg, að aðalástæðan til stofnunar stjórnar á þennan hátt, og það sem rjettlætir hana, er þetta ástand, sem er í landinu, nú vegna stríðsins.

Það er hvorki mjer að kenna nje þakka, að hún kemst á nú, og jeg tel að hyggilegra hefði verið, að þetta hefði beðið til næsta þings og núverandi stjórn hefði setið þangað til, eða að bráðabirgðastjórn hefði verið skipuð til næsta þings.

Jeg vil að endingu geta þess, að þetta fyrirkomulag getur ekki verið til frambúðar, sjerstaklega vegna þess, eins og háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) tók fram, að samvinna getur tæplega haldist með ráðuneyti mynduðu af mönnum með svo mismunandi skoðunum, eins og hjer virðist eiga sjer stað. Og að mynda ráðuneyti af öllum flokkum sje jeg ekki, að sje heppilegt, því það getur verið að einn flokkur hafi marga hæfa menn, en annar engan.