10.01.1917
Efri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

27. mál, strandferðaskip

Framsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Eins og háttv. þm. munu hafa tekið eftir, þá er frumvarp þetta komið fram frá samvinnusamgöngumálanefnd þingsins.

Nefndarálitinu, þgskj. 57, hefir verið býtt út fyrir nokkrum dögum, og þótt það hafi aðallega verið til afnota fyrir háttv. neðri deild, þá tel jeg sjálfsagt, að háttv. deildarmenn hafi kynt sjer það; að minsta kosti hefir verið nægur tími til þess.

Þetta frv. er bygt á mjög sterkum óskum frá landsmönnum, svo sterkum óskum, að jeg hygg að margir hv. þm. gætu ekki komið heim til sín, nema með kinnroða, án þess að þeir hefðu hrundið strandferðunum í einhverjar framkvæmdir. Ástandið, eins og það er nú, með strandferðirnar er afarbágborið, og svo ófullnægjandi, sem frekast er hægt, svo það er von, að óskir manna sje miklar um, að úr þeim sje bætt.

Og þá beinast vonir landsmanna vitanlega til Alþingis. Þaðan vænta þeir hjálparinnar, og þangað berast raddirnar.

En hvernig á að framkvæma strandferðirnar?

Hver ráð eru vænlegust?

Hið fyrsta, er nefndin gjörði, til þess að reyna að fá spurningum þessum svarað, var að fá upplýsingar hjá landsstjórninni, um hvaða tillögur hún sjálf hefði um tjeð efni, eða hvaða tillögur henni hefðu borist.

Hið fyrsta er landsstjórnin sendi, var brjef frá Eimskipafjelaginu, dags. 20. nóv. 1916, þar sem það hvetur eindregið til þess, að landsstjórnin kaupi skip til strandferða, og síðan var oss sent brjef frá Kaupmannaráði Íslands, dags. 18. des. 1916, og er þar eindregið lagt til, að skip sje keypt, og sjerstaklega tekið fram, að mikið heppilegra sje að kaupa skip en leigja.

Nefndin, sem hefir athugað málið rækilega, komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri um aðrar leiðir að ræða en að kaupa skip, en nefndin ræður eigi til þess vegna þess, að hún telji rjett að landið „spekuleri“ í slíku, heldur vegna þess, að hún telur ekki annað ráð vera fyrir hendi.

Það er ekki tilætlun nefndarinnar, að skipið gengi lengur en 7—8 mánuði á ári í strandferðir; hinn tímann ætlast nefndin til, að það sje notað til millilandaferða, því þar þarf líka umbóta við.

Annars tel jeg óþarfa, að vera að skýra mönnum frá því, hversu strandferðirnar eru bágbornar. Það hlýtur öllum lýð að vera kunnugt,

Það var ætlunin að Eimskipafjelagið tæki að sjer strandferðirnar, og um það var samið, en þessar ferðir, sem Gullfoss og Goðafoss fóru, hafa ekki verið í meðvitund manna sem neinar strandferðir, enda hafa þær verið mjög ófullnægjandi og óábyggilegar.

Og nú hefir Eimskipafjelagið tekið með öllu fyrir þessar strandferðir. Áætlun þess fyrir árið 1917 eru eingöngu millilandaferðir, svo það er bersýnilegt, að ástandið verður enn hörmulegra en það nokkurn tíma áður var, ef ekkert er að gjört.

Jeg vil skýra frá því, að Eimskipafjelag Íslands hefir boðist til þess, að hafa á hendi útgjörð skipsins. Tel jeg það mjög heppilegt að svo verði, því það er varhugavert að setja á fót farstjórn fyrir strandferðirnar. Nefndin gengur líka að því sem vísu, að Eimskipafjelagið annist útgjörð skipsins. Það hefir skrifstofur og sjerfræðinga í þessum efnum, og á að vera vel fært til þess. Og auk þess ætti það að vera hagnaður fyrir Eimskipafjelagið, jafnvel svo mikill hagnaður, að eigi væri óhugsandi, að það tæki að sjer skrifstofuhaldið fyrir ekkert eða lítið gjald. Það geta allir sjeð í hendi sjer, að fyrir fjelag, er hefir millilandaferðir á hendi, er mikill hagur að hafa umsjón með strandferðunum, og að flutningur þess frá útlöndum getur gengið mun greiðara til hinna ýmsu staða á landinu þess vegna.

Nefndin lítur svo á, að hjer sje að eins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, á meðan við höfum ekki 2 skip til strandferðanna, og það sama er að segja um strandbátana, er jeg mun skýra nánar, er þeir koma til umræðu.

Nefndin telur það heppilegast, ef unt væri, að fá leigð 2 skip til strandferðanna, og að strandferðum verði þá líkt hagað og Alþingi 1915 áætlaði, og ef það fengist þá fjellu kaupin niður. En þótt nefndin líti svo á, þá telur hún víst, eins og nú stendur, að skip verði keypt.

Og þegar ekki þarf lengur að halda á þessu skipi til strandferða, þá koma dagar og þá koma ráð.

Bæði má selja skipið og eins mætti nota það til millilandaferða, og jeg fyrir mitt leyti tel ekki ólíklegt að Eimskipafjelagið myndi kaupa það. Og jeg fyrir mitt leyti tel það best farið, að Eimskipafjelagið annist sem mest samgöngur vorar á sjó en ekki landsstjórnin.