10.01.1917
Efri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

27. mál, strandferðaskip

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Þetta atriði, er hv. þm. Ak. (M. K.) tók fram, var ekki rætt í nefndinni, en jeg tel mig fara rjett með, er jeg segi, að nefndin leit svo á, sem þetta yrði ekki ótilfinnanleg byrði fyrir landssjóðinn, og þess vegna vildi hún ekki spenna bogann hærra en nauðsyn krefði, en það kom ekki til af því, að hún teldi ekki þörf strandferða allan ársins hring.

Eins og nefndin taldi það víst, að tekjuhalli yrði á strandferðunum, eins víst taldi hún það, að það yrði hagnaður á millilandaferðunum, og gæti það að nokkru jafnað hallann.

En það er í sjálfu sjer rjett, sem hv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að strandferða er þörf allt árið, og að því fje, sem til þess er varið, er vel varið. Og vetrarferðirnar eru fult svo nauðsynlegar fyrir þjóðina sem sumarferðir, þó hins vegar mesta þörfin sje liðið hjá, þegar landsmenn hafa komið afurðum sínum frá sjer.

Jeg býst við því, að nefndin vilji athuga þetta atriði, en því að eins má gera nokkra breytingu á frumvarpinu, að af því stafi engin hætta á, að frv. kunni að daga uppi á þinginu. En um það vænti jeg að formaður nefndarinnar, hv. 2. landsk. þm. (S. E.), gefi upplýsingar, hvort hann vill kalla nefndina saman til að athuga þetta.