11.01.1917
Efri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

27. mál, strandferðaskip

Framsögum. (Guðjón Guðlaugsson):

Jeg talaði um aðalefni frumv. í gær, og þarf því eigi að ræða það frekar á þessu stigi málsins. En það eru aðallega skýringar á ýmsum greinum þess, er jeg nú vildi láta deildinni í tje. Fyrst og fremst skal það fram tekið, að í frv. varð ekki ákveðið neitt hámark á verði skipsins, og liggja til þess tvennar ástæður. Fyrst og fremst það, að nú er alt svo dýrt, að ekki er mögulegt, að ákveða verð á slíku skipi með nokkurri nákvæmni. Og þá er hin ástæðan engu viðráðanlegri, að þörfin er svo brýn, að engin minsta átylla var til að stöðva fyrirtækið. Framkvæmdarstjóri Eimskipafjelags Íslands, er vjer áttum tal við, rjeð oss fastlega frá því, að taka skip á leigu, en taldi aftur ekki ólíklegt, að skip mundi mega kaupa. Um nákvæma verðáætlun á slíku skipi, gat auðvitað ekki verið að ræða, en framkvæmdarstjórinn áleit, að 800 tonna skip mundi kosta eitthvað nálægt 800,000 krónur, eða tonnið um 1000 krónur, og þá auðvitað að sama skapi minna verð, sem skipið yrði minna.

Nefndin bjóst við því, eins og framkvæmdarstjórinn, að skipið yrði undir öllum kringumstæðum dýrt, og því var ástæða til að gjöra sjer mikið far um, að skipið yrði eigi dýrara en nauðsyn krefði.

Nefndin lagði því litla áherslu á, að skipið yrði farþegaskip, jafnvel þó að það sje kostur við strandferðaskip, sem venjulega margir ferðast með, að á í þeim sje rúm fyrir farþega. Vildi nefndin taka tillit til kostnaðarins og setja lágar kröfur í þessu efni. En með því að skipinu er ætlað að ganga 7—8 mánuði ársins, áleit nefndin að eigi mætti þó vera minna en eitt farþegarúm fyrir 20—30 menn, er svaraði til venjulegs annars farrýmis á góðum fólksflutningaskipum hjer við land. Og þá einnig svo út búið, að sjófólk og verkafólk, er ferðast þarf stutta leið, geti verið undir þiljum, án siðferðilegrar vansæmdar eða heilsuspillis. Þetta er hugsunin í nefndárálitinu, og hún er bygð á því, að fara sem vægast út í fjárkröfurnar. Nefndin athugaði líka stærð skipsins, og hafði þar fyrir sjer álit framkvæmdarstjóra, sem áleit ekki stærra skip en 800 tonn hentugt, sjerstaklega vegna einnar alkunnrar hafnar, sem er Hornafjörður. Taldi hann þangað inn væri ekki örugt að sigla stærra skipi. En jafnframt leit nefndin svo á, að öllu minna skip en 6—800 tonn væri ekki með öllu fullnægjandi, sjerstaklega á meðan skipið væri ekki nema eitt, og svo einnig vegna millilandaferðanna að vetrinum.

Jeg gat um það í gær, að atriði það, sem um getur í 4. gr. frumvarpsins, að stjórn Eimskipafjelags Íslands tæki að sjer farstjórn þessa skips, er einkar heppilegt. Nafn Eimskipafjelags Íslands var ekki nefnt, og lá það í því, að bæði getur svo farið að fjelagið breyti nafni, eða hætti að vera til, eða vildi ekki. En farstjórn gilti þá hverja stjórn, er vildi taka að sjer rekstur og umsjón. En orðið farstjórn gilti þá það fjelag, er hefði sjerstaka stjórn og skrifstofu, er sæi um rekstur skipsins. Er þetta eldra orð, frá þeim tímum er skip var leigt. Var þá einn farstjóri og 2 fargæslumenn.

Var þá og rætt um fargjöld og farmgjöld, en ekki tími til þess að semja sjerstaka skrá, og hliðraði nefndin sjer jafnvel heldur hjá því, með því að hún áleit að skrá sú yrði að vera miðuð við það, sem verið hefði á öðrum skipum undanfarið ár milli landa og með ströndum fram, með eðlilegri hækkun og lækkun, sem á gæti orðið, eftir því sem tímarnir breytast. Fanst líka sjálfsagt, að gjöldin yrðu hærri eftir því, sem reksturkostnaður yrði meiri. Nefndin notaði bæði orðin; áleit þó að fyrra orðið yrði það, sem gilda mundi.

Þá áleit nefndin, að það gæti ekki verið meiningin, jafnvel þó að sá hugsunarháttur sje ekki með öllu óþektur meðal manna á lægsta stigi þjóðfjelagsins, að ausa út fje landssjóðs með því að hafa fargjöldin mjög lág; hitt aðalatriðið, að strandferðir geti á komist í stað engra, sem nú eru.

Hvað t. d. fargjöldin snertir, þegar skip ganga ekki að nauðsynjalausu, ættu þau ekki að þurfa að vera mjög há. Á þetta bendir eftirlitsleysi fyrri tíma, því mjer er kunnugt um, að sumir farþegar hafa flutt með sjer fyrir alls ekki neitt, ótilhlýðilega mikið fargóss, jafnvel hafa fundist dæmi þess, að 1—2 menn hafa flutt með sjer heilann bátsfarm, og er slíkt og annað eins hneykslanlegt fyrir fróma menn. Þingið á að gjöra alt sitt ítrasta til að nema burtu svona lúalegan hugsunarhátt. Og þó erfitt kunni að ganga, að uppræta þetta og koma í framkvæmd nýjum og hollum hugsunarhætti, verður að gjalda varhug við því, að hafa eigi farmgjöld og fargjöld svo lág, að fyrirtækið skaðist á því.

Loks samdi nefndin áætlun fyrir 7—8 mánuði; og er það álit og vilji nefndarinnar, að stjórnin hagræði áætluninni svo, að hún verði nægilega rúm, svo að skipið geti gengið sæmilega og eðlilega á milli hafna.

Hv. formaður nefndarinnar (S.E.) mun nú skýra frá vilja nefndarinnar, vilja hennar til að lengja tímann, og þarf jeg því ekki að fara frekar út í það. Treysti jeg því fyllilega að stjórnin — eftir að hafa litið á kostnaðarástæðurnar — skeri úr því, hvort bæta skuli við einni ferð að vetrinum, sem jeg teldi heppilegt og sanngjarna miðlun frá því, að hafa strandferðir alt árið. Þá vil jeg enn fremur benda á það, að það dugar ekki að miða við strandbátinn Ísafold eða önnur slík skip, því að allar slíkar ástæður eru nú orðnar harla breyttar. Eimskipafjelagið t. d. hagar nú svo ferðaáætlun sinni, að það forðast allar strandferðirnar eins og heitan eld. Án þess að ætla mjer að hæla sameinaða fjelaginu, eða lofa það, má þó geta þess, að það var alls ekki talið með strandferðum, að Vesta fór í febrúar, marz, júní, og júlímánuði inn um allan Húnaflóa, og til Ísafjarðar og Reykjavíkur, og var þá stundum orðin svo ljett í sjó, að skrúfan kom upp ef nokkur kvika var. Þetta er nú orðið allmikið breytt, þar sem sameinaða fjelagið neitar nú öllum ferðum og Eimskipafjelags skipin koma eigi nema á einstöku hafnir, og fara lengst og nyrst til Norðurfjarðar, enda þar í óbygðum upp undir Drangajökli og snúa svo við aftur. Af þessu leiðir að það er engin sýnileg ferð til þess, að komast á milli aðalstaða landsins að vetrinum, og vildi jeg fastlega mælast til, að hin heiðraða stjórn tæki þetta til athugunar.