11.01.1917
Efri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

27. mál, strandferðaskip

Eggert Pálsson:

Það er engan veginn meining mín, þótt jeg hafi um orðið beðið í þessu máli, að leggja nokkurt hálmstrá í veg fyrir þetta frumvarp, eða neita því um atkvæði mitt. Þvert á móti greiddi jeg því atkvæði við fyrstu umræðu, og býst við að gjöra það áfram; enda sje jeg ekki, að strandferðanefndin hefði getað skilist við þetta þýðingarmikla mál öllu betur en hún hefir gjört í þetta sinn, og með þeim erfiðu kringumstæðum, sem nú eru fyrir hendi.

Jeg get fyrir mitt leyti, felt mig við þá stefnu, sem komið hefir fram hjá nefndinni, að kaupa eitt skip til strandferðanna en ekki leigja, þar sem hagur Eimskipafjelagsins er nú einu sinni svo, að það er ekki megnugt þess, að taka strandferðirnar að sjer. Jeg tel það einnig stefnt í rjetta átt hjá nefndinni, að stuðla að því, að smærri flutningabátar komist á, og sjeu gjörðir út í hinum ýmsu fjórðungum landsins, og stærri flóum, þar sem þeim verður við komið, og þörfin vitanlega er fyrir þá.

En þegar, eða ef, samgöngurnar á sjónum komast í þetta horf, sem virðist hafa vakað fyrir nefndinni, þá skilst mjer, að eitt strandferðaskip mundi geta nægt um fyrirsjáanlega langan tíma, svo framarlega, sem viðkomustaðir skipsins væru ekki hafðir alt of margir, heldur flóa- og fjórðunga bátunum ætlað að taka við og flytja vörurnar og fólkið til hinna ýmsu, mörgu og smáu hafna.

Jeg veit það að vísu, að slíkt fyrirkomulag mundi gjöra nokkrum einstaklingum, sem lægju lengra frá hinum ýmsu viðkomustöðum skipsins, vörur sínar nokkru dýrari vegna „umskipuninnar“, sem þá þyrfti að eiga sjer stað; en hjá því virðist tæplega unt að synda, nema að fylgja sömu aðferðinni, sem hingað til hefir átt sjer stað, að láta sjálf strandferðaskipin, eða strandferðaskipið koma við á hverri einustu vík eða firði í landinu, hvort sem mikið eða lítið er þangað að flytja. En með því laginu sýnist óhjákvæmilegt, að strandferðakostnaðurinn allur verði að þeirri hít, sem aldrei verður fylt. Sje skipin eða skipið látið koma á allar þær hafnir, firði og víkur, sem hægt er að hugsa sjer, eða upp að telja, er bersýnilegt, að útgjörð þeirra eða þess, geta ekki með nokkru móti borið sig, nema með feikna miklu tillagi úr landssjóði. En ekki nóg með það; heldur með því fyrirkomulagi loku skotið fyrir, að fjórðunga- og flóabátarnir geti haft nægilegt að gjöra. Þeir hljóta, vegna hinna mörgu viðkomustaða strandferðaskipanna eða skipsins, að sigla að mestu tómir um þau svæði, sem þeim er ætlað um að fara, og lítið þar af leiðandi að fást upp í þann útgjörðarkostnað, svo að styrkinn til þeirra má því ekki heldur nema við neglur sjer, ef þau sýslufjelög, sem halda þeim úti eiga að geta staðist kostnaðinn.

Mín skoðun er því sú, að með þessu fyrirkomulagi á strandferðum verði bæði strandferðaskipaútgjörð og flóabátaútgjörð, að tveimur hítum, er eti hvor aðra upp og ávalt sje jafnstórar eftir, hversu miklu sem í þær er fleygt. Væri aftur á móti í hin aðferðin tekin upp, að láta sjálft strandferðaskipið koma við á fremur fáum stöðum, og flóa- eða fjórðungsbátana taka svo við, þá hygg jeg, að hvorutveggja útgjörðin gæti borið sig með nokkurn veginn hæfilegum styrk úr landssjóði. Eins og jeg gat um, kynni þetta fyrirkomulag að verða nokkuð dýrara einstaklingunum, vegna t. d. „umskipunar“, er þá ætti sjer stað. En þar sem allar strandferðir mundu með þessu fyrirkomulagi borga sig betur en ella, þá gæti þar af leiðandi flutningsgjöldin, bæði með strandferðaskipunum og bátunum, lækkað, ef svo sýndist. Og ynnist þá með þessu móti nokkuð upp í uppskipunarkostnaðinn.

Jeg sje nú af nefndaráliti strandferðanefndarinnar, eða rjettara sagt einu fylgiskjali með því, að hún ætlar þessu nýja skipi að fylgja sömu reglunni og áður, að tína upp svo að segja hvern fjörð og vík í hringferðum sínum.

Jeg skal engan veginn lá nefndinni, þótt hún kæmist að slíkri niðurstöðu í þetta sinn, enda miða mín ummæli ekki á neinn hátt til þess, að raska gjörðum hennar nú. Það er að vissu leyti eðlilegt, að nefndin víki ekki í þetta sinn frá fornri venju eða aðferðum. Því bæði er tíminn naumur til starfa og alt fremur óvíst og þar á meðal hvort hinir fyrirhuguðu flóa- eða fjórðungsbátar komast á.

Mín ummæli stefna því mest til framtíðarinnar, ef þing og stjórn vildi þá nokkurt tillit taka til þeirra. Því þetta er það mál, sem áreiðanlega gengur aftur og sennilega á hverju þingi.

Og ef svo væri, að þessar bendingar mínar væru einhvers virði sem framtíðarstefna þessa þýðingarmikla máls, strandferðanna, eða flutninganna á sjónum umhverfis strendur landsins, þá gjöri jeg ráð fyrir, að þing og stjórn taki þær til greina í gjörðum sínum og tillögum framvegis.

Að vísu má nú segja, að þetta mál komi mjer ekki beinlínis við, þar sem mál þetta snertir svo lítið hagsmuni kjördæmis míns. En það snertir mig þó sem hvern annan fulltrúa þjóðarinnar og gefur mjer fylstá rjett til þess, að láta mína skoðun í ljós í málinu. Enda engan veginn víst, að mínar tillögur sje á minna viti bygðar en annara, þótt jeg þekki betur samgöngur á landi en sjó.