12.01.1917
Efri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Magnús Kristjánsson:

Þetta mál er enn lítt undirbúið, og jeg mun því ekki greiða því atkvæði mitt. Jeg get ekki heldur sjeð, að neina nauðsyn beri til að samþykkja það nú. Jeg býst ekki við, að mönnum sje hugleikið að fækka skipum sínum, heldur muni þeim vera hugstætt, að eignast fleiri. Jeg álít því alveg ástæðulaust að ætla, að hjer sje nein hætta á ferðum. Og þó að frumvarpið yrði samþykt, mundi stjórnin veita mönnum undanþágur.

En jeg lít svo á, að frumvarp þetta sje óheppilegt að einu leyti. Jeg er hræddur um, að ef það yrði að lögum, mundi það draga úr áhuga manna á skipakaupum, og þá er ver farið en heima setið.

Tíminn er ónógur til þess, að afgreiða málið nú, og vil jeg því stinga upp á, að því verði vísað til allsherjarnefndar, að þessari umræðu lokinni.