12.01.1917
Efri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Magnús Torfason:

Jeg stend upp til þess að styðja till. háttv. þm. Ak. (M. K.) um að vísa málinu til allsherjarnefndar. Þó tel jeg rjettara að vísa því til sjávarútvegsnefndar. Jeg gjöri þó þetta ekki að neinu kappsmáli.

Háttv. þm. Snæf. (H. St.) sagði, að þetta mál þyrfti ekki mikillar athugunar við (Halldór Steinsson: Það voru ekki mín orð). Hafi mjer misheyrst, bið jeg afsökunar. Hjer er þó um bannmál að ræða. Og mjer þykir skrítið, að háttv. þm. Snæf. skuli vera svo ginnkeyptur fyrir þessu bannmáli.

Þegar um er að ræða höft á atvinnufrelsi, verða menn að hugsa sig vel um. Jeg þekki það vel á höftunum, sem lögð voru á með fiskiveiðasamþyktinni, til hásællar minningar, og Alþingi varð að upphefja, hversu miklum skaða þau geta valdið. Þau höft ollu stórskaða og jeg man vel, hve mikið jeg hafði fyrir því, að losa síðasta haftið, er jeg kom til Ísafjarðar. Og sú lausn gladdi alla, og enginn hefir viljað vekja upp þann draug aftur.

Jeg veit að vísu, að tekið hefir verið fram, að erlendar þjóðir hafi samþykt skipasölubann hjá sjer. Þetta gæti verið gott fordæmi. En maður verður alt af að taka tillit til sjerstakra ástæðna. Ef við athugum, að löggjöfin sjálf telur skipin svo lítils virði, að eigi sje hægt að fá nema ¼, ? eða ? part út á þau ný í fiskiveiðasjóði, sjáum vjer, að ástandið hjer er mjög ólíkt því, sem það er erlendis, svo að ómögulegt er að bera það saman.

Að því er snertir innihald frumvarpsins, er það að segja, að það er býsna alment orðað, Þar segir, að ekki megi leigja nje selja nein skip út úr landinu. Þetta tel jeg afarvarhugavert að því er fiskiskip snertir. Jeg gæti skilið það fremur, ef átt væri við flutningaskip, sem eru í hærra verði en fiskiskipin. Ekkert er heldur til tekið, hvort þetta bann á að gilda um skip, sem nú þegar eru keypt eða skip, sem verða keypt. Og það finst mjer svo stór galli á frumvarpinu, að eigi sje viðunandi.

Enn fremur er það, að ef menn ætla sjer að kaupa skip og sjá að þeir geta eigi selt þau aftur, þótt þeir fegnir vildu, mundu þeir hætta við skipakaupin. Frumvarpið getur þess vegna unnið á móti tilgangi sínum.

Jeg skal líka taka það fram, að mjer þykir skrítið, að þetta frumvarp skuli koma fram á sama tíma, sem menn eru að kaupa fjölda skipa. Eins og menn vita hefir mótorbátaútvegur tvöfaldast á Ísafirði nú á síðari árum. Mjer finst því, að í frumvarpinu felist vantraust í garð útgjörðarmanna, sem hafa komið útgjörðinni í blóma og umskapað bæði þennan bæ og Ísafjörð.

Líka ber að gæta að því, að margir þessara útgjörðarmanna eru fátækir og því varhugavert að gjöra mikið að því, að hefta atvinnufrelsi þeirra. Það gæti vel hugsast, að þingið fengi á sínum tíma skaðabótakröfur frá þeim mönnum, er keypt höfðu skip og vildu síðar selja þessa gömlu dalla. Nú eru kol í háu verði, og því vel hugsanlegt, að menn vildu losa við sig gömul skip. En þessi lög mundu hindra það, og þar með gætu þau hindrað kaup á nýjum skipum. Og jeg legg mikla áherslu á þetta atriði málsins, meðal annars af því, að jeg heyri sagt, að útlendar skipsmiðastöðvar hafi svo mikið að gjöra, að þær hafi margra ára skipapantanir, jafnvel fram yfir 1920.

Jeg vil taka undir það með hv. þm. Ak. (M. K.), að þessu máli verði ekki flaustrað af nú á þinginu; annars gæti ver farið en til er ætlast.