12.01.1917
Efri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Magnús Torfason:

Hæstv. ráðherra (S. J.) var að tala um að hafnir yrðu þurkaðar af skipum, ef þessi lög næðu ekki fram að ganga, og fanst á honum, að hann væri fús á að taka á sig þá ábyrgð, er lögin leggja honum á herðar, en jeg er hræddur um, að það sje ekki af þeirri ástæðu, heldur hinu, að ekki væri keypt meira af skipum.

Það getur ekki annað en glatt mig, því að hingað til hefir stjórnin ekki verið svo mjög þess hugar. (Ráðherra Sigurður Jónsson: það var í sambandi við aðra ábyrgð). (Sigurður Eggerz: Meir skal konung hafa til frægðar en langlífis).

En frv. þetta getur hindrað skipakaup og skipaviðskipti. Það er ekki nema eðlilegt, að menn verði ragir við að kaupa skip, þegar þeim er bannað að selja þau aftur. Vitaskuld bætir það úr, sem hæstv. ráðherra (S. J.) sagði, að landsstjórnin mundi ríf á að veita undanþágur, og ef hún gjörir það eftir beiðni og þörfum, eins og vænta má samkvæmt orðum hans, þá verða þetta að eins gagnlaus pappírslög gjörð til þess eins að hanga aftan í öðrum þjóðum.

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) var að tala um, að það væri freisting fyrir útgjörðarmenn að selja skip sín háu verði. En jeg veit ekki annað en að nú hafi lengi verið hátt verð á skipum, án þess það hafi freistað útgjörðarmanna svo, að þeir hafi selt skip sín. Þessi hræðsla er því með öllu ástæðulaus, og ef það reyndist, að hún væri á nokkru bygð, þá vil jeg vekja athygli háttv. Ed. á því, að landsstjórnin getur, ef hún telur þess þörf, gefið út bráðabirgðalög um þetta efni, eins og um aðrar ófriðarráðstafanir. En fyr en í nauðir rekur má ekki og á ekki að hindra frjáls viðskifti í þessu efni.

Frv. gjörir engan mun á verslunarskipum og fiskiskipum. Hjer er því ráðist á annan aðalatvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn, og mjer er sem jeg sjái framan í hv. 2. landsk. þm. (S. E.), ef Alþingi ætlaði að hefta atvinnufrelsi bænda. Þá mundi hann rísa upp með brýnda raust og taka háa tóninn.

Annars veit jeg ekki hvaðan mönnum úr sveitum kemur vald til að tala um þetta mál, hvað fiskiskipin snertir.