12.01.1917
Efri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Framsögumaður (Sigurður Eggerz):

Það er einkenni á öllum menningarlöndum, að samgöngur á sjó og landi og í lofti taka stöðugum framförum. Samgöngur stytta fjarlægðir í löndunum og flytja þá ýmsu landshluta nær hver öðrum. Samgöngurnar eru lykillinn að framtíð þjóðanna, og um leið og þær eru bættar, rísa upp nýir atvinnuvegir og hinir gömlu stækka. Alt breytist við nýjar samgöngur. Alt rís nýfætt og nýskapað upp úr hægðinni og mollunni. Jeg játa það, að jeg hefi tröllatrú á samgöngum. Samgöngur á friðartímum eru nauðsyn, bæði fyrir þessa þjóð og aðrar þjóðir, samgöngur milli hinna ýmsu landshluta og landa á milli. En samgöngur á ófriðartímum landa á milli, eru meira en nauðsyn, þær eru lífsnauðsyn fyrir oss Íslendinga.

Ófriðurinn geisar í kring um oss. Hingað til hefir hann ekki slegið hrákalda hramminum á oss, því þótt ýmsir hafi átt við örðug kjör að búa, vegna verðhækkunar, sem átt hefir sjer stað, þá hefir landið í heild sinni grætt. Miljónirnar hafa runnið inn í landið. Og ýmsir framtakssamir og stórhuga menn hjá oss eru nú orðnir stórríkir á þessum árum. Og hinn afarmikli gróði, sem hefir orðið á sjávarútvegi vorum, sýnir hve þetta land er ríkt, og hve mikla trú vjer megum hafa á því. En það, sem oss hefir oft vantað á þessu þingi, það er einmitt trú á landið, og þess vegna hafa afskifti vor af ýmsum atvinnumálum verið alt of smátæk. Afskifti vor af samgöngumálum vorum hafa verið of mjög mörkuð af þessu trúleysi á framtíðarmöguleika landsins. Og af því hefir landið beðið stórtjón. Ef vjer hefðum verið stórtækir í þessum efnum á undanförnum þingum, þá gætum vjer horft með enn meira trausti inn í framtíðina, einnig á þessum ófriðarárum. Skipastóll sá, er vjer höfum nú yfir að ráða, er sem hjer segir:

1. Gullfoss.

2. Væntanlegt skip í stað Goðafoss.

3. Skip sameinaða gufuskipafjelagsins samkvæmt samningi frá 1909.

4. Væntanlegt strandferðaskip.

Í þessum flokki eru skip sameinaða fjelagsins, en margir eru nú þeir, er samkvæmt fenginni reynslu treysta lítið á það fjelag, ef í harðbakkana slær, því ærið örðugt hefir oft verið að sækja rjett vorn í hendur þess fjelags.

Þótt sumum kunni að þykja skipastóll sá, sem jeg hefi talið, glæsilegur, þá er þess að gæta, að vanhöld á skipum eru aldrei meiri en nú. Reynsla annara þjóða hefir sýnt það, að siglingar nú á tímum eru stórum hættulegar, og einu megum vjer ekki gleyma, að stríðið getur átt eftir að sýna svartari hliðar, og sjálfsagt erum vjer enn þá ekki komnir á örðugasta stríðshjallann. Nú er það orðin sannspá, er jeg spáði á síðasta þingi, að harðna mundi frá því, sem þá var komið. Og enn er jeg viss um að harðnar. Skipum getur fækkað enn svo, að ómögulegt verði að fá skip, ómögulegt að fá leigt skip. Okkar eigin skip geta orðið fyrir vanhöldum. En mest hættan stafar landi voru af því, ef vjer verðum skipalausir. En slíkt má með engu móti koma fyrir. Alþingi verður því að skerast í leikinn, og gjöra sitt ítrasta til þess, að varðveita hagsmuni lands og þjóðar í þessu efni. Frumvarp það, sem hjer liggur fyrir og samþ. hefir verið af hv. Nd. Alþingis, er ein af slíkum ráðstöfunum til að varðveita landið. Samgöngumálanefndin hefir stungið upp á, að keypt væri skip 1500— 2000 tonna; en hv. Nd. hefir verið það stórhugaðri, að hún hefir breytt því og gjört ráð fyrir fleiri skipum. Jeg ætla ekki að vera margorður við þessa umræðu málsins, enda býst jeg við, að fá tækifæri til að taka til máls við aðra umræðu, en jeg ætla þó að minnast á nokkrar mótbárur, sem hafa komið, og fram kunna að koma gegn frv. Fyrsta mótbáran, sem fram hefir komið er sú, að nú sje skip mjög dýr, og ef ófriðurinn hætti, þá mundi skipið falla í verði, og landið bíða tjón.

Þessari mótbáru er því að svara, að því miður er alls ekki víst, að stríðið hætti svo bráðlega — ómögulegt um það að segja, — en þó svo væri, yrði samt sem áður skipaekla svo mikil, að hætta á, að skipið eða skipin fjellu í verði, er ekki mjög mikil. Enda skip nú fljót að borga sig. Og því verður þá að taka, þótt verðfall verði á skipunum, því að önnur hætta er, fjárhagslega sjeð, miklu meiri, og það er hættan sú, að landið stæði uppi skipalaust, og sú hætta verður ekki með tölum talin. Og hver vill bera ábyrgð á henni?

Þá ástæðu get jeg hugsað mjer færða gegn frv., að örðugt muni vera að fá fje, en jeg get ekki gjört mjer í hugarlund að svo verði, því það er kunnugt, að báðir bankarnir hafa stórgrætt fje síðustu árin, og hafa mikið fje handbært. Og jeg býst við því, að þeir yrðu fúsir að veita lánið með sanngjörnum kjörum.

Nefndin taldi rjett, að skipið væri svo stórt, að það væri 1500—2000 smálestir, og er það með tilliti til Ameríkuferða, því það er miklu hagfeldara og ódýrara, að reka þær ferðir með stóru skipi en litlu, og jeg verð að leggja talsverða áherslu á þetta.

Í frv. samgöngumálanefndarinnar var tiltekin stærð skipsins, en það hefir fallið burtu í hv. Nd , en hvers vegna er mjer ókunnugt.

Það er líka miklu haganlegra að kaupa skip til flutninga en að leigja það. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, greiðir landsstjórnin nú í leigu fyrir skip það, er hún hefir í förum, skipið Bisp, 65 þúsund krónur á mánuði, auk kola, eða 780 þúsund kr. um árið, auk kola. Af því mega allir ráða, að betra er að kaupa skip, þó dýr sje, en að leigja. Og þegar einstakir menn ráðast í skipakaup, þá ætti það ekki að vera landinu ofvaxið.

Jeg hefi fyrir satt, að frv. það. er hjer liggur fyrir, sje vilji alls þingsins, en jeg hefi því miður ekki heyrt afstöðu stjórnarinnar til þess, en jeg vona að hæstv. ráðherra, er á sæti hjer í deildinni, upplýsi mig og aðra um afstöðu stjórnarinnar til málsins.

Og jeg vona, að hæstv. stjórn taki málinu vel, og að hún leysi það röggsamlega af hendi, því í þessu efni verðum vjer að gjöra mjög ákveðna kröfu til röggsemi stjórnarinnar, því þetta er einmitt eitt af þeim málum, sem sjerstaklega er ætlast til, að allra flokka stjórn, líkt og þessi, hafi að stefnuskrármáli. Eins og jeg hefi tekið fram áður, er aðalhlutverk stjórnarinnar að reyna að bjarga landinu sem best út úr ófriðnum. Hins vegar getum vjer ekki gjört alt of miklar kröfur til hennar á öðrum sviðum, þar sem skoðanirnar eru svo mismunandi. Og þó stjórnin sjálf væri svo skapi farin, að hún vildi sjóða graut úr skoðunum sínum, þá mundi slíkt lítið þýða, því vitanlega mundu flokkarnir, sem að henni standa, skilja hana þá eina eftir yfir grautnum.