12.01.1917
Efri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Ráðherra Sigurður Jónsson:

Í tilefni af orðum hv. 2. landsk. þm. (S. E.), þar sem hann var að beina því til landsstjórnarinnar, að hún vildi láta í ljós skoðun sína, vil jeg segja örfá orð.

Jeg get um þetta efni látið mjer nægja, að vísa til orða hæstv. forsætisráðh. (J. M.) í Sþ., þar sem hann gat þess, að stjórnin teldi það aðalskyldu sína, að ráða fram úr þeim vandkvæðum, sem ófriðurinn leiddi yfir þjóðina.

En að öðru leyti skal jeg taka það fram, að landsstjórninni hefir ekki enn unnist tími, sökum þinganna, til að tala sig saman, hvorki um þetta mál nje annað, en þó þykist jeg mega fullyrða, að

þetta verði fremsta eða með fremstu áhugamálum landsstjórnarinnar.

Viðvíkjandi stærð skipsins, skal jeg geta þess, að það kom fram í gær í hv. Nd., að það væri ekki heppilegt að binda það við ákveðna lestatölu, því vel mætti það vera, að hægt væri að fá skip, er væri 1000 til 1300 smálestir að stærð og fært til Ameríkuferða fyrir hlutfallslega betra verð en hið stærra. Og sá munur gæti verið svo mikill, að hagfeldara væri að kaupa minna skipið.