12.01.1917
Efri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Magnús Torfason:

Það er svo með þetta mál, sem önnur, er ófriðinn snerta, að Alþingi verður að kasta öllum áhyggjunum upp á stjórnina.

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er aðeins heimild fyrir landsstjórnina til að kaupa skip, og það vegna þess, að svo er litið á, sem skipakaup felist ekki í þeim almennu ráðstöfunum, er þegar hafa verið gjörðar.

Jeg felli mig betur við, að frv. útiloki það ekki, að landsstjórnin geti keypt fleiri en eitt skip, ef hún telur þess þörf, en þar fyrir má ekki skoða það svo, sem jeg með atkvæði mínu vilji endilega vera með því, að landsstjórnin kaupi tvö skip, eða ýta undir að svo verði gjört. Landsstjórnin verður að ráða fram úr því á eigin ábyrgð.

En jeg verð að leggja áherslu á það, að landsstjórnin vindi bráðan bug að skipakaupunum, því ef það er gjört, eru líkur fyrir að skipakaupin borgi sig, en ef það er dregið á langinn, þá eru líkur fyrir að kostnaðurinn verði meiri. Hjer á það við: „Það sem þú gjörir, gjör þú skjótt“.

Í tilefni af ræðu hv. 4. landsk. þm. (G. G.) vil jeg taka það fram, að fyrir alla, er hafa lesið annað en um orustur í styrjöldum á Norðurlöndum, er það fullkomlega ljóst, að leiga og farmgjöld á skipum hækka stórum á öllum ófriðartímum, og að þessi hækkun helst nokkuð lengi eftir hvern ófrið. Og þar sem hjer er um óendanlega meiri og stærri ófrið að ræða en nokkru sinni fyr í heimssögunni, þá eru allar líkur til, að hækkunin haldist lengi, svo ef að landsstjórnin vindur bráðan bug að skipakaupunum, þá gæti það tæplega orðið til tjóns.

Það sem mjer þykir að þessu, er það, að það hefir ekki verið gjört fyrir löngu, því þá hefðum við staðið miklu betur að vígi. En jeg vil ekki sakast um orðinn hlut, og fráfarandi landsstjórn er vorkun, þótt hún hafi eigi hrundið þessu máli áfram, því hana vantaði það er þurfti, alment þingtraust að baki sjer.