12.01.1917
Efri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Magnús Torfason:

Þetta mál er eitt af stórmálum þingsins; en því miður er tíminn alt of stuttur fyrir hv. Ed., að athuga það eins og þyrfti. Ekki einu sinni tími til að athuga það í nefnd. Jeg get lýst því yfir, að jeg er stefnu frumvarpsins algjörlega samþykkur. Jeg skil, að það vaki fyrir þinginu, að það þurfi talsvert að leggja af mörkum til að fylla upp í skarð það, sem vjer höfum í dag höggið í landssjóðinn. Og þá vakir og hitt ekki síður fyrir oss, að stuðla að því, að síldarútvegurinn verði sem innlendastur. Og jeg hygg að jeg hafi eins næma tilfinningu eins og aðrir fyrir þessu hvorutveggja. En þó að jeg vilji ekki vera þröskuldur í vegi þessa máls, verð jeg að líta svo á, að þetta sje svo mikið stórmál, að varhugavert sje að samþykkja það svona undirbúningslítið á þessu aukaþingi. Á því eru hliðar, sem vita að útlöndum, sjerstaklega Noregi; en að sambandi við það land er oss mesta hagræði. En aftur á móti er útlit fyrir, að Norðmönnum sje ekki sambandið við oss Íslendinga neitt áhugamál að öðru en útvegssambönd þeirra og síldveiðar snertir. Ber þar raun vitni, að Björgvinjarskipin ætluðu að hætta Íslandsferðum sínum síðastliðið ár.

Það er kunnugt, að ýmsir af mönnum, sem þennan útveg reka, hafa töluvert samband við Noreg. Panta þeir þaðan síldarnætur, báta, tunnur o. fl., og geta ekki verið án þessara sambanda. Tala jeg í þessu efni sjerstaklega fyrir hönd Ísfirðinga, enda sennilegt, að þeirra viðskifti við Noreg sje tiltölulega meiri en annara veiðistöðva. Jeg tel því talsvert varhugavert, að samþykkja frumvarpið nú, en ekkert hættulegt þótt frestað sje til næsta alþingis; alhægt að samþykkja það á næsta þingi, áður en ein einasta síldartunna yrði flutt út úr landinu. Mjer virðast þau úrslit málsins eðlilegust og rjettust, að fela það stjórninni, sem vjer berum fult traust til, til undirbúnings undir næsta þing.

Jeg tek það aftur fram, að jeg vil ekkert láta liggja í þessari tillögu minni, sem bendi á, að jeg sje á móti stefnu frumvarpsins. Samkvæmt þessu leyfi jeg mjer því að afhenda svofelda rökstudda dagskrá:

„Með því að deildinni þykir varhugavert að samþykkja lög um þetta mál nú á aukaþinginu, skorar hún á stjórnina, að undirbúa frv. í þessa átt til næsta reglulegs Alþingis, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá«.