12.01.1917
Efri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Magnús Torfason:

Mjer lýst svo, að alt það, sem hinir hv. ræðumenn hafa sagt, miði að því, að það sje rjett, er jeg hjelt fram, að sjálfsagt væri að fresta máli þessu.

Jeg get undirskrifað flestar almennar ástæður, er háttvirtir þingmenn hafa fært fram í máli þessu, en málið horfir alt öðruvísi við, þegar ófriður geisar yfir Norðurálfu, og miklu erfiðara er um alla aðdrætti til landsins en á friðartímum, þegar við getum verslað, hvar sem við viljum, eða við allan heiminn.

Taka vil jeg það fram, að enginn hv. þm. hefir sýnt fram á, að neitt tapaðist við það, þótt mál þetta biði næsta þings, og í því sambandi vil jeg lýsa því yfir, að ef landsstjórnin leggur, eftir nána athugun, frumvarp um þetta fyrir næsta Alþingi, þá vil jeg styðja það alt hvað jeg get.

Þess ber að gæta, að það er ekki búið að ræða þetta mál með þjóðinni, að minsta kosti er það alveg órætt í mínu kjördæmi, en það má vera, að það sje af því, að þar er þessi atvinnurekstur í byrjun.

Jeg verð að leggja mikla áherslu á, að jeg hefi leitað álits um þetta mál, til síldarútgjörðarmanna í mínu kjördæmi, og telja þeir frv. mjög varhugavert.

Og það hagar svo til á Ísafirði, að þeir, sem hafa lagt mest fje í síldarútveg þar, eru mestmegnis tiltölulega fátækir menn, sem lifa upp á náð bankanna, og mega því ekki við auknum kostnaði eða verulegum álögum á útgjörðina, eða neinum hnekki í þessari ótryggu atvinnugrein. Og þar sem málið getur orðið til stórtjóns fyrir einstaka menn, þá er það út af fyrir sig eitt næg ástæða til þess, að málinu sje frestað.

Jeg vil biðja hv. þingmenn að athuga það, að það eru að eins örfá kjördæmi á landinu, sem hafa óhag af þessum lögum, og jeg get vel skilið það, að ef jeg væri þm. Snæfellinga, þá yrði mjer starsýnt á miljónina, sem hjer er um að ræða, og að mjer yrði jafnvel of starsýnt á hana. Það gæti því verið, að fulltrúar hinna hjeraðanna ósjálfrátt væru ekki alveg óvilhallir dómendur þessa máls, að því eigi betur athuguðu.

Dagskrá sú, er jeg hefi borið fram, kemur ekki í veg fyrir það, að þau kjördæmi, er vilja moka til sín fje af sjávarafla annara kjördæma, fái vilja sínum framgengt, því hún fer að eins fram á frestun á málinu.

En þegar sjávarhjeruðin bera allan aðal-þungann af opinberu framkvæmdunum, þá vil jeg, að þau sje metin svo mikils hjer á hv. Alþingi, að þau sje ekki svift framkvæmdarafli sínu. Miklu fremur ætti hitt að vera, að hv. Alþingi hjálpaði til að gjöra þau enn öflugri og þróttmeiri, svo þau geti borið sem mest af landsbyrðinni.

Það er sagt hjer, að erlendar þjóðir muni ekki blanda sjer í innanlandsmál vor. Þetta tel jeg rjett, en þær munu hins vegar taka til sinna ráða.

En jeg tel ekki rjett að fara langt út í það mál. Jeg tel best fara á því, að sem varlegast sje talað um öll mál, er að útlöndum vita, og jeg get því ekki sagt neitt verulegt af því, sem mjer býr í brjósti.

Þó get jeg minst á eitt atriði, af því að því hefir áður verið hreyft opinberlega, og vil jeg þá minna hv. þingheim á það, að það er til nokkuð, sem heitir timburtollur.

Við vitum að nú er timburekla. Við megum ekki miða alt við Reykjavík; við verðum líka að miða við okkur þarna norður á Hornströndum, og jeg get skýrt frá því, að þar hefir verið svo mikil timburekla, að það hefir trauðla verið hægt að fá rafta til að refta með fjárhúskofa. Timburtollur gæti því komið óþægilega við.

Mjer finst það því í meira lagi óvarkárt, að óræddu og óathuguðu máli, að ætla að pína þetta mál gegn um þingið.

Það var áðan minst á innheimtulaunin, og sagt, að sumir innheimtumenn væru óánægðir yfir því, að innheimtulaunin væru lækkuð úr 2% niður í 1%. Jeg vil algjörlega afbiðja mjer allar aðdróttanir um, að jeg líti öðruvísi á mál þetta, vegna þessa ákvæðis. Í sambandi við þetta, skal jeg skýra frá því, að jeg hefi afsalað mjer allri dýrtíðaruppbót, og má þó öllum ljóst vera, að störf mín hafa aukist mjög, en launin minkað sökum ófriðarins.

Hv. þm. Ak. (M. K.) gat þess, að frv. um verðlaun fyrir útflutta síld, væri eigi enn gengið gegn um hv. Nd. Jeg hefi spurt um ástæðuna að þessu, og mjer sagt að dráttur þessi stafi af því, að hv. Nd. vilji færa tjeð frv. til betra máls, og gjöra það aðgengilegra. En jeg tel samt allan varann bestan. En vegna þess að mál þetta, sem er nátvinnað þessu máli, er eigi enn komið til deildarinnar, þá tek jeg dagskrána aftur, en geymi mjer rjett til að koma með hana síðar.