12.01.1917
Efri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Sigurður Eggerz:

Vitanlega er öllum málum hraðað svo mjög nú á þinginu, að það er með öllu ómögulegt fyrir þessa hv. deild að bera ábyrgð á þeim.

Jeg er yfirleitt mótfallinn tollum á allri framleiðslu, en hjer er vitanlega nokkuð öðru máli að gegna, því að þessi tollur kemur að mestu leyti niður á útlendingum, og það er rjett, því að þeir græða miljónir á síldveiði hjer.

Jeg fæ ekki sjeð, að það sje nein ástæða til að fresta þessu máli. Við þurfum að fá fje, því þetta þing hefir verið að mun stórtækara en nokkurt annað þing.

Hvað snertir hræðslu þá, er hjer hefir komið fram, um að útlendingar mundu beita oss einhverjum þrælatökum, þá hygg jeg þá hræðslu með öllu ástæðulausa. Enda væri það tvísýnn hagnaður fyrir Norðmenn að gjöra svo, því við getum hækkað tollinn enn meir, og Norðmönnum er meiri hagnaður en svo að síldveiðum sínum hjer við land, að þeir vilji hætta þeim.

Hv. þm. Ísf. (M. T.) vildi tala með mikilli varúð um þetta mál, vegna þess, að það varðaði oss út á við. Vitanlega er rjett að fara gætilega, en karlmenskunni verður þó að ætla eitthvert rúm, og of mikil hræðsla held jeg, að það sje hjá hv. Alþingi, ef alveg á að sleppa eins sjálfsögðum tolli og síldartollinum. Satt að segja held jeg að okkur standi meiri hætta af deiglunni, sem í oss býr, heldur en af karlmenskunni og áræðinu.