12.01.1917
Efri deild: 21. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Magnús Torfason:

Síðan mál þetta var hjer síðast á dagskrá, þá hefir aðstaða þess breytst svo, að jeg býst við, að hv. þm. sje nú jafnákveðnir í, að láta málið ekki ná fram að ganga, eins og þeir áður voru ákveðnir í að samþykkja það.

Mál það, um verðlaun á útfluttri síld, sem er samgróið þessu frv., er nú fallið úr sögunni. því hefir verið ráðið til lykta í hv. Nd. með svohljóðandi rökstuddri dagskrá;

„Með því að þetta mál verður ekki nægilega rannsakað og undirbúið til samþyktar á þessu þingi, telur deildin rjett, að fresta því til næsta þings, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Við sjáum því, að lög um verðlaun fyrir útflutta síld leika alveg í lausu lofti, og það er ekki einu sinni vikið að því með einu orði í dagskrá Nd., að landsstjórnin eigi að hafa neinn undirbúning á þessu máli undir næsta Alþingi.

Síðan mál þetta var hjer síðast á dagskrá, hafa mjer borist mótmæli frá 28 síldarútvegsmönnum á Ísafirði, gegn því, að frv. þetta nái fram að ganga, og lögð afarmikil áhersla á það. Eru það allir síldarútvegsmenn þar, er jeg man nú í svip eftir. (Halldór Steinsson: Eru það alt síldarútvegsmenn?) Já. (Sigurður Eggerz: Eru mótmælin pöntuð ?) Jeg vil alvarlega vísa á bug öllum slíkum aðdróttunum; en jeg spurði kjósendur þar um afstöðu þeirra til málsins, og þetta er svar þeirra, án þess, að jeg hafi haft hin minstu afskifti um meðferð þeirra á málinu, enda hefi jeg haft öðrum hnöppum að hneppa nú í þingannríkinu.

Jeg ber það traust til hæstv. Ed., að hún láti ekki slík lög sem þessi, ná fram að ganga, Lög, sem meira en tvöfalda gjöld á þessari afurð landsins, lög, er koma mjög órjettlátlega niður, þar sem alt, er þarf til útgjörðarinnar, hefir hækkað afskaplega, og tiltölulega miklu meira en annað. T. d. hafa síldarnætur nær þrefaldast í verði, og hækka nær daglega.

Jeg vil ekki þreyta hv. Ed. með lengri ræðu, en leyfi mjer að afhenda hæstv. forseta þá rökstuddu dagskrá, er jeg tók aftur í dag, og vænti þess, að hæstv. Ed. samþykki hana. Hún hljóðar svo:

Með því, að deildinni þykir varúðarvert að samþykkja lög um þetta mál nú á aukaþinginu, skorar hún á stjórnina að undirbúa frumvarp í þessa átt til næsta reglulegs Alþingis, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.