12.01.1917
Efri deild: 21. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Karl Einarsson:

Fyrir nokkrum dögum komu tvær nefndir í þinginu sjer saman um þessi tvö frumvörp.

Og það kom mjer kynlega fyrir sjónir, að Nd. sleit verðlaunafrumvarpið frá þessu frumvarpi. Þau hefðu átt að verða samferða. Jeg skil þó eigi, að þetta þurfi að hafa þau áhrif, sem hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) ljet í ljós. Sumir, sem vildu skilja verðlaunafrv. frá þessu í Nd., gjörðu það með þeim fyrirvara, að stjórnin legði málið fyrir næsta reglulegt þing. En þó þetta verðlaunafrumvarp næði eigi fram að ganga. þá var það þó ætlun allra þingmanna, að íþyngja ekki innlendum síldarútvegi, og að málið gengi fram í sumar. Það er líka minna tjón fyrir landssjóð, að þessu frv. sje frestað, heldur en frestun á frv. um útflutningsgjaldið. En jeg álít það tæplega samandi, að setja háan toll á síldarútgjörðina, þegar hún er að byrja að sumrinu. Ef við frestum að leggja tollinn á þangað til á þingi í sumar, gjörum við útgjörðarmönnum mikinn óleik. Þeir eru þá komnir hingað með skip sín, og kemur þessi tollur alveg á óvart. Af þessu gætu þeir beðið mikinn fjárhagslegan halla. Jeg get því ekki sjeð, annað en að ógjörlegt verði, að leggja þennan toll á í sumar, ef við fellum frumvarpið nú.