12.01.1917
Efri deild: 21. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Magnús Kristjánsson:

Jeg stóð upp til þess að ítreka það, að mjer finst, að ekki geti komið til nokkurra mála, að þetta frv. verði samþ. hjer í deildinni, úr því að verðlaunafrv. hefir verið felt í Nd. En hins vegar er það að vega aftan að mönnum, að fella frv. nú, í því trausti, að demba því yfir útgjörðarmenn þegar þeir eru að byrja síldarveiðar í sumar. Það hefir verið litið svo á, að hv. deild yrði að vera varfærin í gjörðum sínum, og bera meiri hluta ábyrgðarinnar á þeim málum, sem hjer eru afgreidd. Þetta bið jeg hv. deildarmenn að hafa jafnan hugfast. Hjer er það sómi deildarinnar, sem veltur á. Og þá er illa farið, ef okkur skyldi henda það ólán, að tilraun okkar til þess að þrengja kosti erlendra ofbeldismanna, snerist sem vopn gegn innlendum síldarútgjörðarmönnum. En það er einmitt þetta, sem jeg óttast mest. Og ef ekki koma fram lög um endurgreiðslu, mun það gjöra íslenskum síldarútgjörðarmönnum illfært að reka þennan útveg framvegis.

Jeg vil að lokum eindregið mælast til, að þetta frv. sæti sömu forlögum og verðlaunafrv. í Nd., þeim, að dagskráin verði samþ.