11.01.1917
Efri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

30. mál, lán til flóabáta

Guðmundur Ólafsson:

Jeg býst við að geta verið fáorður. Þessi þingsál.till. gekk mótmælalaust gegn um háttvirta Nd., og fjárveitinganefnd sömu deildar hefir gefið henni meðmæli sín. Og það eru einnig tillögur landsverkfræðingsins, að þarna verði gjörður sem fyrst vegur.

Vegurinn er fjölfarinn, en liggur sumstaðar í brattri og giljóttri fjallshlíð og er því oft á hverju ári illfær eða ófær. Verða þá ferðamenn, sem þar eiga leið, oft að neyðast til að fara yfir tún og engjar jarða þeirra, er vegurinn liggur um. Og veldur það einatt sundurþykkju og óánægju. Það er líka óhæfilegt, að langferðamenn, og þá sérstaklega pósturinn, sem ferðast í þarfir landsins, þurfi að eyðileggja tún manna af þessum ástæðum. Fjárhæðin, sem hjer er farið fram á, að landssjóður veiti, er ekki heldur neitt ýkjamikil, og þing og stjórn leggur að sjálfsögðu áherslu á, að þessari bráðnauðsynlegu vegagjörð verð, sem fyrst komið í verk.

En það, sem jeg sjerstaklega vil taka fram og vekja athygli hæstv. deildar á, er það að, þessi fjárveiting má að engu leyti spilla fyrir fjárframlögum landssjóðs til bryggjugjörðar á Blönduósi, því að þótt svo hafi farið, að fjeð hafi ekki orðið notað, eins og ætlast var til, stafar það eingöngu af heimsstyrjöldinni, og dýrtíð þeirri er af henni stafar. Áætlun um kostnað við bryggjuna var gjörð áður en dýrtíðin hófst, og er því að líkum alt að helmingi of lág nú. Fjárskorturinn einn er því næg ástæða til, að svo hefir farið með þetta fyrirtæki sem fleiri á þessum tímum, þótt áhugi manna um nauðsyn þeirra sje óbreyttur.

Jeg vænti því, að sótt verði um meira fje til bryggjunnar á næsta þingi, og treysti því að hæstv. deild, sem lítur sanngjarnlega á allar dýrtíðaruppbætur nú, veiti nægilegt fje til hennar þá.